Sverrir Þorgeirsson sigraði á Grand Prix



Fall er fararheill er oft sagt. Sverrir Þorgeirsson skákmeistarinn efnilegi úr Hafnarfirði mætti alþjóðlega meistaranum Arnari E.Gunnarssyni í fyrsu umferð Grand Prix mótsins í gærkvöldi og varð að lúta í lægra haldi.

 

Sverrir lét síðan engan bilbug á sér finna, lagði hvern andstæðingin af öðrum að velli og stóð að lokum uppi sem sigurvegari kvöldsins með 6 vinninga af 7 mögulegum. Þrátt fyrir að þurfa að láta sér lynda annað sætið i þessu móti, með 5 af 7, er  Arnar E. Gunnarsson efstur í Grand Prix mótaröðinni. Pálmi R. Pétursson  og Jorgé Fonseca urðu jafnir Arnari í 2.- 4. sæti með 5 vinninga.  Jafnir í 5.- 6. sæti urðu Helgi Brynjarsson og Kristján Örn Elíasson með 4½.  

 

Gaman að sjá Pálma R. Pétursson sestan við skákborðið hér sunnan heiða. Hann var um árabil einn sterkasti skákmaður Norðlendinga en er nú búsettur sunnanlands. Unglingaverðlaunin skiptust á milli Benjamíns G. Einarssonar og Dags Kjartanssonar en þeir hlutu báðir 3½ vinning. Þátttakan var nokkuð góð 16 keppendur mættu til leiks að þessu sinni. Grand Prix kannan góða féll sigurvegaranum í skaut og góð tónlistarverðlaun hlutu allir efst menn og unglingar.

 

Skákstjórninni skiptu þeir bróðurlega á milli sín Helgi Árnason úr Fjölni og Óttar Felix Hauksson TR.

 

 

ÓFH