SÞR 7.umferð: Guðmundur Kjartansson og Björn Þorfinnsson efstir og mætast í næstu umferð



SkakthingReykjavikurLogo17

 

Guðmundur Kjartansson vann peð snemma tafls gegn Degi Ragnarssyni en gaf drottningu fyrir hrók og mann og færi með valdað frípeð. Dagur þurfti síðan að gefa heilan hrók fyrir frípeðið og þar með var Dagur að kveldi kominn.

20170129_125946

Það var glatt á hjalla á efsta borði hvar ljúfmennin og skemmtikraftarnir Guðmundur Kjartansson og Dagur Ragnarsson áttust við.

Hinn alþjóðameistarinn við toppinn, blaðamaðurinn og fyrrum forsetinn Björn Þorfinnsson vann Örn Leó Jóhannsson og deilir nú efsta sætinu með Guðmundi. Örn Leó virtist lengi vel vera með ágæta stöðu en notaði mikinn tíma og urðu að lokum á mistök sem kostuðu hann peð og síðan var ekki að sökum að spyrja.

Sama má raunar segja um skákir Lenku og Daða, Júlíusar og Þorvarðar Fannars og Gauta Páls og Björgvins; ómögulegt var að spá fyrir úrslit fyrr en nokkuð langt var liðið á keppnisdaginn. Svo fór að Lenka, Þorvarður Fannar og Björgvin höfðu betur og verða því öll á efstu borðum í næstu umferð, ásamt Benedikti Jónassyni sem lagði Jóhann Ingvason. Þar verða líka Jon Olav, sem vann Hrannar Arnarsson í tvísýnni skák og þeir Bárður Örn og Björn Hólm Birkissynir sem gerðu jafntefli í sinni innbyrðis viðureign.

20170129_125934

Það var sannkölluð bræðrabylta í skák Bárðar Arnar og Björns Hólm. En hvað ætli Björn Þorfinnsson sé að hugsa í bakgrunninum?

Áttunda og næstsíðasta umferð verður tefld á miðvikudagskvöld, 1. febrúar og hefst kl. 19.30. Þá mætast stigahæstu menn mótsins, þeir Guðmundur Kjartansson og Björn Þorfinnsson en Dagur mætir Þorvarði Fannari og Lenka Björgvini Víglundssyni.

Það verður síðan á föstudaginn 3. febrúar sem ljóst verður hver hreppir titilinn Skákmeistari Reykjavíkur 2017, því þá fer níunda og síðasta umferðin fram.

Önnur úrslit 7. umferðar sem og pörun 8.umferð má sjá á Chess-results.