Spennan magnast á HaustmótinuEftir þrjár umferðir á Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur eru fimm skákmenn enn með fullt hús, tveir í opnum flokki, tveir í B-flokki og einn í C-flokki. Spennan er tekin að magnast, einkum í neðri flokkunum þremur, því efstu menn mætast í þeim öllum í næstu umferð.

Í A-flokki eru efstir og jafnir þeir Vignir Vatnar Stefánsson og Jóhann Ingvason með 2,5 vinning. Stigahæsti keppandi mótsins, Björn Þorfinnsson, og hinn eitilharði TR-ingur Þorvarður Fannar Ólafsson eru báðir með 1,5 vinning en þeir eiga eftir að mætast í innbyrðis viðureign.

Í B-flokki hefur hinn útsjónarsami Svavar Viktorsson komið manna mest á óvart með þrjár vinningsskákir. Í humátt á eftir Svavari koma TR-ingarnir Eiríkur K. Björnsson og Alexander Oliver Mai, báðir með 2 vinninga. Alexander á hins vegar inni eina óteflda skák og getur því náð lærimeistara sínum úr Laugalækjarskóla að vinningum. Svo skemmtilega vill til að þeir mætast í 4.umferð.

Í C-flokki virðist fátt geta stöðvað Arnar Milutin Heiðarsson en hann hefur unnið allar þrjár skákir sínar. Það er einna helst Jón Eggert Hallsson sem hefur gert sig líklegan til þess að veita Arnari Milutin mótspyrnu en Jón Eggert hefur 2 vinninga og á inni eina óteflda skák. Þeir mætast í 4.umferð.

Í Opnum flokki eru efstir og jafnir með fullt hús þeir Joshua Davíðsson og Árni Ólafsson. Einar Dagur Brynjarsson kemur í humátt á eftir þeim með 2,5 vinning. Þeir Árni og Joshua mætast í 4.umferð.

Allar frestaðar skákir Haustmótsins verða tefldar á þriðjudagskvöld kl.19:30. Næstkomandi miðvikudagskvöld verður svo 4.umferð tefld og verða klukkur settar í gang klukkan 19:30. Sem fyrr verða fimm skákir í beinni útsendingu. Skákáhugamenn eru hvattir til þess að líta við í skáksalinn á miðvikudagskvöldið. Allir velkomnir!

Skákir mótsins eru slegnar inn af Daða Ómarssyni. Skákirnar ásamt upplýsingum um einstök úrslit og stöðu mótsins má finna á Chess-Results.