Sögufrægur farandbikar Haustmóts TRHaustmót Taflfélags Reykjavíkur hefst næstkomandi sunnudag og er það í 80.skiptið sem mótið er haldið. Að vanda er teflt um glæsileg verðlaun, bæði peningaverðlaun og verðlaunagripi. TR-ingar tefla einnig um hinn eftirsóknarverða titil ‘Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur’. Undanfarna áratugi hefur Skákmeistari TR hlotið veglegan farandgrip sem má sjá á myndinni hér að neðan.

Fyrst var teflt um þennan grip árið 1962 og þá varð Gunnar Gunnarsson hlutskarpastur. Síðan þá hafa flestir af okkar fremstu skákmeisturum fengið nafnið sitt grafið á þennan bikar og má þar helst nefna stórmeistarana Friðrik Ólafsson, Guðmund Sigurjónsson, Helga Ólafsson, Jón L. Árnason, Margeir Pétursson, Jóhann Hjartarson, Hannes Hlífar Stefánsson, Þröst Þórhallsson, Helga Áss Grétarsson og núverandi Íslandsmeistara Guðmund Kjartansson. Þrír skákmenn hafa oftast hlotið bikarinn til varðveislu eða alls fjórum sinnum; Björn Þorsteinsson, Sigurður Daði Sigfússon og Guðmundur Kjartansson.

Í ár bregður svo við að ekki komast fleiri nafnaplötur á bikarinn. Þessi sögufrægi verðlaunagripur fer því til varðveislu hjá Taflfélagi Reykjavíkur, en þess í stað verður teflt um nýjan verðlaunagrip á Haustmótinu sem hefst næstkomandi sunnudag. Hver verður fyrstur til að fá nafnið sitt grafið á nýja bikarinn?

  • Skráning í Haustmót T.R.
  • Dagskrá og nánari upplýsingar