Sævar Bjarnason sigurvegari Æskunnar og Ellinnar



Þrír efstu í mótinu: Gunnar , Sævar og Jón.

Þrír efstu í mótinu: Gunnar, Sævar og Jón.

Andar æskunnar og viskunnar svifu yfir húskynnum Taflfélags Reykjavíkur í gær þegar mótið sem brúar kynslóðirnar, Æskan og Ellin, fór fram í sextánda sinn. 54 keppendur tóku þátt og kom alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnason þeirra fyrstur í mark með 8 vinninga af níu. Annar með 7 vinninga var Jón Úlfljótsson en jafnir í 3.-6. sæti með 6,5 vinning voru Gunnar Erik Guðmundsson, Benedikt Þórisson, Júlíus Friðjónsson og Magnús V. Pétursson þar sem Gunnar hlýtur bronsið á mótsstigum (tiebreaks).

Iðunn Helgadóttir fór mikinn í mótinu og hér etur hún kappi við hinn margreynda Einar S. Einarsson.

Iðunn Helgadóttir fór mikinn í mótinu og hér etur hún kappi við hinn margreynda Einar S. Einarsson.

Líkt og áður í þessu skemmtilega kynslóðamóti var stemningin í salnum frábær og hart en drengilega var tekist á við skákborðin. Í mörgum tilfellum hafði unga fólkið í fullu tré við þá reyndari og oftar en ekki vel það því margir krakkanna stóðu sig frábærlega og röðuðu inn vinningum. Aldursforseti mótsins, Magnús V. Pétursson, hélt mikla eldræðu við upphaf mótsins þar sem hann ítrekaði meðal annars mikilvægi þess að koma skákinni að fullu inn í almenna kennslu í skólum. Ræðunni miklu fylgdi Magnús svo eftir með góðum árangri í mótinu þar sem hann hafnaði í 3.-6. sæti eins og fyrr segir.

Maggi Pé var ekki vandræðum með að ræða við Gísla og félaga í Landanum.

Maggi Pé var ekki í vandræðum með að ræða við Gísla og félaga í Landanum.

Þá var ánægjulegt að fá starfsmenn Landans hjá RÚV í heimsókn á meðan mótinu stóð en innslag frá viðburðinum verður sýnt í Landanum á næstu vikum.

Mótshaldarar þakka keppendum fyrir þátttökuna og vilja koma á framfæri sérstökum þökkum til Magnúsar V. Péturssonar og Jóa Útherja, helsta styrktaraðila mótsins, en einnig til Birnu Halldórsdóttur sem stóð vaktina í Birnu-kaffi nú sem endra nær og bauð upp á dýrindis vöfflur ásamt öðrum ljúffengum veitingum.

Á Chess-Results má finna heildarúrslit og hér á eftir fylgir útlistun á aukaverðlaunum. Sjáumst að ári!

Efst stúlkna: Batel Goitom Haile 6v

80 ára og eldri: 1. Magnús V. Pétursson 6,5v 2. Sigurður Kristjánsson 6v 3. Gunnar K. Gunnarsson 5,5v

70-79 ára: 1. Þorsteinn V. Þórðarson 6v 2. Guðfinnur Kjartansson 6v 3. Þór Valtýsson 5,5v

60-69 ára: 1. Sævar Bjarnason 8v 2. Jón Úlfljótsson 7v 3. Júlíus Friðjónsson 6,5v

13-15 ára: 1. Benedikt Þórisson 6,5v 2. Óttar Örn Bergmann Sigfússon 5v 3. Þorsteinn Jakob F. Þorsteinsson 4,5v

10-12 ára: 1. Gunnar Erik Guðmundsson 6,5v 2. Batel Goitom Haile 6v 3. Adam Omarsson 5,5v

9 ára og yngri: 1. Guðrún Fanney Briem 5v 2. Jósef Omarsson 4,5v 3. Lemuel Goitom Haile 4v