Pistill Guðmundar Kjartanssonar um Hastings mótiðHastings 2011/2012

Þá er maður kominn til baka frá Hastings eftir ágætt mót, ég setti mér ekkert allt of há markmið fyrir mótið, var aðallega að hugsa um að komast aftur í æfingu og 10-15 stiga hækkun hefði verið ásættanlegt.
Strax í fyrstu umferð fékk ég engan annan en Wang „what´s his name?!“ Yue sem virðist hafa lækkað aðeins á stigum en var fyrir ári síðan með 2756. Ég eyddi litlum tíma í undirbúning enda þreyttur eftir ferðalagið og tefldi byrjunina frekar illa. Kínverjinn sigraði mig nokkuð sannfærandi og var frekar leiðinlegt að byrja mótið á því að tapa með hvítu mönnunum. Wang Yue endaði svo sem sigurvegari mótsins, var með sjö af átta og gerði svo jafntefli í síðustu til að tryggja sér sigurinn.  Svo hann sýndi það nokkuð greinilega að hann er mun sterkari en aðrir keppendur.
Í næstu þremur umferðum fékk ég aðeins viðráðanlegri andstæðinga og vann ég þá nokkuð sannfærandi.
Svo á nýársdag mætti ég ungum indverskum alþjóðlegum meistara, ca. 2485, og er það líklega sú skák sem ég var hvað óánægðastur með. Var kominn með allt í lagi stöðu eftir byrjunina og var búinn að sjá leið sem ætti að jafna nokkuð auðveldlega en geri þá hrikaleg strategísk mistök í staðinn. Hann var búinn að eyða nokkuð miklum tíma fram að þessu en núna var eins og hann vissi nákvæmlega hvað hann ætti að gera og eyddi hann litlum tíma í að klára mig!
Í fjórum síðustu skákunum átti ég svo mjög góðan endasprett, vann fyrst stigalægri andstæðing svo vann ég David Howell og Mark Hebden nokkuð sanngjarnt og sannfærandi sem ég var að sjálfsögðu ánægður með.
Í síðustu skákinni mætti ég svo Andrei Istratescu 2627 sem var alltaf í smá uppáhaldi hjá okkur félögunum. Mjög sterkur skákmaður, sérstaklega í ljósi þess að hann teflir mjög hratt og eyðir mestum tíma sínum í að labba um salinn með bumbuna út, vaggar hausnum aðeins til hliðanna og mumlar svo eitthvað við sjálfan sig. Ef hann var ekki einhversstaðar að vagga hausnum og sveifla höndunum þá var hann yfirleitt úti að reykja.
Ég var aldrei að hugsa um að ná stórmeistaraáfanga, það var einfaldlega ekki eitt af markmiðum mínum og þegar ég vissi að ég þyrfti að vinna Istratescu í síðustu, reyndi ég að einbeita mér frekar að því að tefla ágæta skák heldur en að reyna að vinna hann strax í fyrsta leik. Jafntefli hefði verið ásættanlegt en það gaf mér smá von að ég vissi að hann þyrfti að vinna mig til að ná verðlaunasæti.
Ég tefldi mjög góða skák að mestu leyti og áður en ég vissi af var ég orðinn peði yfir og með nánast unna stöðu, þegar allt virðist ganga upp hjá manni nokkuð fyrirhafnalaust þá á maður það til að verða kærulaus og kannski var það það sem gerðist.  Það voru amk. tvö krítísk augnablik þar sem ég hefði getað klárað dæmið nokkuð auðveldlega sem ég missti af. Svo tapaði ég mjög óvænt að lokum sem var nokkuð svekkjandi….. Reyndar var eitt annað krítískt augnablik í skákinni, þegar ég tók eftir því að sami maður og frá því í fyrstu umferð var aftur steinsofandi á fremsta bekk (fannst honum Knezevich afbrigðið svona leiðinlegt?!).
Mér fannst ég vera að tefla nokkuð vel yfir höfuð og margt jákvætt þó að ég sé kannski frekar að einbeita mér að því sem betur mætti fara. Þetta er líklega með erfiðari mótum sem ég hef tekið þátt í þar sem ég átti tvisvar sinnum lengstu skák umferðarinnar og einu sinni næst lengstu, þannig að ég var eiginlega alveg uppgefinn strax í byrjun móts (eða kannski er maður bara að eldast!). Allavega, ég er farinn í skákmannaboltann. Sjáumst hress og kát!