Öðlingamótið hafiðTæplega 40 keppendur eru skráðir í Skákmót öðlinga sem hófst í gærkveld í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur en sú þátttaka er með betra móti hin síðari ár. Stigahæstur keppenda er Kristján Guðmundsson (2289) sem er margreyndur þrátt fyrir langa fjarveru frá skákborðinu. Skammt undan er Fide-meistarinn Sigurbjörn Björnsson (2278) sem hafnaði á dögunum í 3.-4. sæti á Skákþingi Reykjavíkur. Þá er stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova (2200), einnig á meðal keppenda en hún nældi sér í aukaverðlaun á Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu sem lauk fyrr í mánuðinum. Búast má við því að þau verði öll í toppbaráttu Öðlingamótsins þó leiðin verði ekki greið því keppendalistinn er vígalegur að sjá.

20180321_200801

Strax í fyrstu umferðinni voru framreiddar margar jafnar og spennandi viðureignir en á fyrsta borði atti Kristján kappi við hinn eitilharða Halldór Viðar Garðarsson (1793) sem gaman er að sjá hversu öflugur er við taflmennskuna en þess má geta að hann verður áttræður á næsta ári. Halldór átti í fullu tré við Kristján með svörtu mönnunum og þegar jafntefli var samið eftir spennuþrungna baráttu prísaði Kristján sig sælan og hafði á orði að hann hefði verið stálheppinn verandi með tapaða stöðu á tímabili.

Á öðru borði lagði Sigurbjörn Magnús Kristinsson (1770) þar sem Magnús réði ekki við frípeð Sigurbjörns sem var með drottningu gegn tveimur hrókum Magnúsar. Á þriðja borði hafði Lenka svo öruggan sigur gegn hinum sókndjarfa Friðgeiri Hólm (1746). Óvæntustu úrslit kvöldsins verða að teljast sigur Óskars Long Einarssonar (1729) á Björgvini Víglundssyni (2147) og þá gerðu Sverrir Örn Björnsson (2135) og Björgvin Jónas Hauksson (1704) jafntefli í maraþonskák. Páll Þórsson (1693) vann baráttusigur á Halldóri Pálssyni (2056) þar sem sá síðarnefndi hafði lengi vel innan við mínútu á klukkunni.

20180321_200726

Alls verða tefldar sjö umferðir og fer önnur umferð fram næstkomandi miðvikudagskvöld. Taflmennskan hefst á slaginu 19.30 og þá mætast m.a. Sigurbjörn og Haraldur Baldursson (1949), Jóhann H. Ragnarsson (1985) og Lenka, sem og Þór Valtýsson (1922) og Þorvarður F. Ólafsson (2176). Eins og ávallt eru áhorfendur velkomnir og alltaf er heitt á könnunni!

Öll úrslit ásamt stöðu eru birt á Chess-Results og þangað fara aukinheldur skákir mótsins jafnóðum og þær berast.