NM í skólaskák: Sigur hjá Vigni í fimmtu umferðÞað er óhætt að segja að skák Vignis Vatnars Stefánssonar í morgun hafi verið honum lærdómsrík.  Andstæðingur hans, Svíinn Sixten Rosager, er tæpum 200 stigum lægri en okkar maður og því mátti búast við sigri Vignis sem stýrði svörtu mönnunum.  Tefld var Sikileyjarvörn og var Vignir Vatnar fljótur að jafna taflið eftir passífa taflmennsku þess sænska í byrjuninni.  Eftir 16. leik hvíts var Vignir kominn með mun betri stöðu og gott frumkvæði ásat því að hafa unnið peð án nokkurra bóta fyrir hvítan.

 

Vignir var fljótur að stilla upp vænlegri sóknarstöðu en ónákvæmur leikur og mjög hröð taflmennska gaf hvítum færi á að jafna taflið á nýjan leik.  Svíinn bætti stöðu sína jafnt og þétt í skák sem var illa tefld af báðum aðilum enda var eins og keppendur héldu að um hraðskák væri að ræða.  Eftir 35. leik Vignis var Svíinn í raun kominn með gjörunna stöðu en Vignir hélt ótrauður áfram enda vel þekkt að margt getur gerst í skákum í þessum aldurflokki.  Það fór svo að Svíinn lék illa af sér í 50. leik sem varð til þess að hann varð óverjandi mát í tveimur leikjum og okkar maður hrósaði sigri.

 

Gríðarlega lærdómsríkur og mikilvægur sigur hjá Vigni Vatnari sem er fyrir vikið í efsta sæti með 4,5 vinning fyrir lokaumferðina ásamt Nansý Davíðsdóttur.  Það er vel þekkt í skákinni og skilur oft á milli þeirra góðu og þeirra betri að það getur verið snúið að breyta betri stöðu í unna stöðu.  Oft er um ákveðinn tímapunkt í skákinni að ræða og þá ríður á að vera þolinmóður og nýta tímann vel.  Í þessu tilfelli tefldi Vignir of hratt og missti niður mun betri stöðu í tapaða stöðu.  Vignir á engu að síður hrós fyrir að gefast ekki upp heldur halda áfram og reyna að leggja gildrur fyrir andstæðing sinn.  Sálfræðihernaðurinn tókst í þetta sinn sem sýnir reynsluna sem Vignir hefur þegar öðlast.

 

Eins og stendur er Vignir ofar en Nansý á stigum en í sjöttu og síðustu umferð sem hefst núna kl. 16 mætir Vignir Dananum Aleksander Flaesen sem er mjög stigalár.  Daninn hefur þó aðeins tapað einni viðureign og er með 3 vinninga svo Vignir þarf að halda fullri einbeitingu til að leggja hann af velli.  Á sama tíma mætir Nansý næststigahæsta keppanda flokksins en hvernig sem fer er þegar öruggt að tvöfaldur íslenskur sigur verður í E-flokki þar sem Vignir og Nansý hafa 1,5 vinnings forskot á næstu keppendur.

 

Viðureign Vignis verður í beinni útsendingu á vefnum.

  • Chess-Results
  • Heimasíða mótsins (beinar útsendingar)