Mikil spenna fyrir lokaumferð Skeljungsmótsins



Áttunda og næstsíðasta umferð Skeljungsmótsins – Skákþings Reykjavíkur fór fram í kvöld og urðu miklar sviptingar á toppnum.  Þorvarður F. Ólafsson (2182) sigraði Hjörvar Stein Grétarsson (2279) með svörtu mönnunum í aðeins 21 leik eftir að Hjörvar virtist misreikna sig og tapaði við það liði.  Með sigrinum komst Þorvarður upp að hlið Hjörvars með 6,5 vinning.

Á sama tíma sigraði Lenka Ptacnikova (2249) Hrannar Baldursson (2080) í skrautlegri sóknarskák og komst þar með einnig í efsta sætið með 6,5 vinning ásamt Hjörvari og Þorvarði.  Atli Freyr Kristjánsson (2105) sigraði Halldór B. Halldórsson (2201) þar sem sá síðarnefndi virtist hafa öll færin í mikilli sókn sinni en náði þó ekki að nýta þau til fulls.  Atli komst með sigrinum í fjórða sætið með 6 vinninga.

Pörun níundu og síðustu umferðar sem fer fram á föstudag kl. 19.00 liggur fyrir en þá mætast m.a. Lenka og Hjörvar í hreinni úrslitaskák, Atli mætir Þorvarði og Daði Ómarsson (2091) mætir Ingvari Þór Jóhannessyni (2345).

Það má því búast við feykispennandi lokaumferð og eru áhorfendur hvattir til að mæta.

Pörun má nálgast á Chess-Results.

Heimasíða mótsins.