Magnús Pálmi Örnólfsson með öruggan sigur á þriðjudagsmóti TR í gær



Þátttaka var með ágætum á þriðjudagsmóti TR í gær og ljóst að margir settu ekkert fyrir sig stífa dagskrá á Íslandsmóti skákfélaga um helgina. Á meðal þeirra var sigurvegari gærkvöldsins, Magnús Pálmi Örnólfsson. Fyrir lokaumferðina var Magnús einn efstur með fullt hús, Guðni Pétursson var með 2½ en síðan aðrir sex með 2 vinninga. Þeir Magnús og Guðni mættust síðan í síðustu umferð og þar hafði Magnús Pálmi betur en öðru sætinu náði annar Pálmi, þ.e. Pétur Pálmi Harðarson sem tapaði bara fyrir Magnúsi.

Lokastöðu að öðru leyti og einstök úrslit má síðan sjá á Chess results

Þriðjudagsmótin eru alla reglulega þriðjudaga í vetur og hefjast kl. 19:30 í Skákhöll TR í Faxafeni. Tefldar eru fjórar umferðir, tímamörk eru 15 mínútur með 5 sekúndna viðbótartíma og reiknast mótin til atskákstiga.