Magnús Alexandersson látinnMagnús Alexandersson (1930-2007) er látinn, sjötíu og sjö ára að aldri, á hjartadeild Landspítalans, eftir langvarandi veikindi.

Magnús, eða Malex eins og hann var jafnan kallaður, var einn af merkustu félögum T.R.. Þeir, sem ólust upp í Taflfélaginu á Grensásveginum muna sérstaklega vel eftir honum. Hann var hvetjandi við okkur strákana og man sá, sem þetta skrifar, enn vel eftir “5 á 5” skákunum, þar sem hann tefldi skákir við aðra, þar sem ætlaðar voru fimm skákir á fimm mínútna umhugsunartíma. Hann tefldi manna hvassast og var jafnan kominn í sókn áður en mótherji hans hafði áttað sig á, hvað væri að gerast.

Undirritaður og Malex tefldu margar “5 á 5” og hafði ég ofboðslega gaman af. Þessi augnablik með Malexi, á þriðju- og fimmtudagskvöldum, eru eiginlega með skemmtilegustu minningum, sem ég hef frá uppvaxtarárunum í gamla T.R. Og grunar mig, að þeir, sem á annað borð urðu vitni að slíkum atburðum, gleymi þeim seint. Ekki aðeins að Malex væri með skemmtilegri skákmönnum, heldur var hann glaður og reifur og skemmti mönnum samhliða við skemmtilegum tilsvörum. Margir muna eftir “hehe, svona gaukar”, sem hann sagði oft þegar hann var kominn í sókn og ætlaði að máta.

Malex átti langa og merkilega sögu í skákhreyfingunni og fyrir nokkru sagði hann mér eitt og ofan af því, sem hann mundi eftir. Því miður náði ég ekki að taka það á band, en þar fengu margar skemmtilegar sögur að fjúka. Og ekki talaði hann í mín eyru illa um nokkurn mann, jafnvel ekki þá, sem höfðu ekki sýnt honum heilindi.

Mér er líka efst í huga hversu mikla umhyggju hann bar okkur litlu guttunum í T.R. og þá virðingu sem hann sýndi okkur, þótt við gætum stundum ekki mikið í skák og værum ekki háir í loftinu. Þrátt fyrir það, leit á hann okkur sem jafningja, félaga í skákinni.

 

Ég hef vitað um veikindi Malexar hin síðari misseri og frétti af því nýlega, að hann væri mjög veikur. Engu að síður fékk ég sjokk, þegar ég fékk þær fréttir út til Lúxemborgar, að hinn mikli kappi væri allur. Ég hafði haldið í vonina um, að hann fengi að vera hér aðeins lengur. Lífið heldur áfram, en minningarnar lifa.

Blessuð sé minning Magnúsar Alexandersonar, Malexar.

SGB