KÖE efstur T.R. manna fyrir lokaumferð áskorendaflokks



Kristján Örn Elíasson (1982) stefnir hraðbyri að 2000 stiga múrnum en hann sigraði barnalækninn geðþekka, Ólaf Gísla Jónsson (1899), í áttundu og næstsíðustu umferð áskorendaflokks Skákþings Íslands sem fram fór í kvöld.  Af tíu þátttakendum frá Taflfélagi Reykjavíkur er hann efstur með 5,5 vinning í 5.-9. sæti.

Það kemur ekki á óvart að Hjörvar Steinn Grétarsson (2320) er efstur fyrir lokaumferðina með 7 vinninga eftir sigur á Þorvarði F. Ólafssyni (2211) í kvöld.  Í öðru sæti með 6,5 vinning er Stefán Bergsson (2070) en hann hefur farið hamförum eftir slæmt tap í fyrstu umferð og hefur unnið allar skákir eftir það utan eins jafnteflis.  Í kvöld lagði hann alþjóðlega meistarann, Sævar Bjarnason (2171) í aðeins 16 leikjum.

Jafnir í 3.-4. sæti með 6 vinninga eru Spánverjinn, Jorge Fonseca (2009) og Fide meistarinn, Þorsteinn Þorsteinsson (2286).

Níunda og síðasta umferð fer fram á morgun kl. 13 en teflt er í félagsheimili T.R. að Faxafeni.  Þá mætast m.a. Stefán og Hjörvar en jafntefli í þeirri skák tryggir báðum sæti í landsliðsflokki að ári.  Á öðru borði tefla síðan Jorge og Þorsteinn.  Kristján Örn teflir á þriðja borði og mætir Þorvarði.

Árangur T.R. manna eftir átta umferðir:

Eiríkur K. Björnsson (2034) 4,5v
Kristján Örn Elíasson (1982) 5,5v
Frímann Benediktsson (1950) 4v
Þorsteinn Leifsson (1814) 4,5v
Agnar Darri Lárusson (1752) 4v
Atli Antonsson (1720) 4v
Friðrik Þjálfi Stefánsson (1694) 4,5v
Páll Andrason (1550) 3v
Birkir Karl Sigurðsson (1370) 3v
Hjálmar Sigurvaldason (1350) 3v

  • Heimasíða SÍ
  • Chess-Results
  • Skákirnar