Jón Viktor og Jóhann efstir á SkákþinginuIMG_7834 (1)Alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson (2455) og Jóhann H. Ragnarsson (2008) eru efstir með fullt hús vinninga að loknum fjórum umferðum á Skáþingi Reykjavíkur. Fjórða umferð fór fram í gærkveld og þar sigraði Jón Viktor Björns-banann, Vigni Vatnar Stefánsson (2071), og slíkt hið sama gerði Jóhann gegn Fide-meistaranum Guðmundi Gíslasyni (2307) en Jóhann, sem er sautjándi í stigaröð keppenda hefur farið vel af stað.

Stórmeistarinn Stefán Kristjánsson (2471), Mikael Jóhann Karlsson (2161) og Dagur Ragnarsson (2219) eru í 3.-5. sæti með 3,5 vinning en Stefán og Dagur gerðu jafntefli í innbyrðis viðureign og Mikael lagði Jón Kristinsson (2240). Hópur níu keppenda kemur næstur með 3 vinninga.

Í baráttu alþjóðlegu meistaranna hafði Björn Þorfinnsson (2418) betur gegn IMG_7794 (1)Guðmundi Kjartanssyni (2456) og óvæntustu úrslit umferðarinnar eru án efa sigur hins unga Mykhaylo Kravchuk (1504) á hinum margreynda Stefáni Bergssyni (2023). Þá heldur Héðinn Briem (1546) áfram góðu gengi og hafði nú betur gegn Lofti Baldvinssyni (1979) og þó nokkuð var um jafntefli hvar nokkru munaði á stigum keppenda í milli.

Glás af spennandi viðureignum verður í boði í fimmtu umferð og stemningin geggjuð eftir því. Á fyrsta borði mætast efstu menn og hlýtur alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor það hlutskipti að stýra svörtu mönnunum gegn ljósum her Jóa Ragg. Á næsta borði verður það Dagur Ragg sem hefur hvítt gegn norðlendingnum skeinuhætta, Mikael Jóhanni, og þá mætir einn af hinum ógurlegu fyrrverandi Rimskælingum, Oliver Aron Jóhannesson (2198) stórmeistaranum Stefáni Kristjáns. Að auki verða margar afar athyglisverðar rimmur á öðrum borðum og má til að mynda benda á viðureign félaganna Vignis Vatnars og Björns Hólm Birkissonar (1962).
IMG_7840
Fimmta umferð fer fram á sunnudag og hefst kl. 14. Áhorfendur velkomnir – heitt á könnunni og kruðerí með!

Skákir mótsins eru væntanlegar en unnið er að innslætti.