Jón Viktor efstur á Skákþingi ReykjavíkurIMG_7854

Jón Viktor hafði betur með svörtu gegn Jóhanni H. Ragnarssyni.

Í fimmtu umferð skákþingsins voru flest úrslit ekki óvænt samkvæmt pappírunum sem getur í raun talist óvænt í miðju móti. Á fyrstu níu borðunum unnu þeir stigahærri þá stigalægri. Má þá nefna að á fyrsta borði vann alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson (2455) Jóhann H. Ragnarsson (2008) en fyrir umferðina voru þeir einir með fjóra vinninga. Á öðru borði vann Dagur Ragnarsson (2219) Mikael Jóhann Karlsson (2161) og á því þriðja vann stórmeistarinn Stefán Kristjánsson (2471) Oliver Aron Jóhannesson (2198). Vignir Vatnar vann Björn Hólm í áhugaverðari viðureign milli lykilmanna í unglingaliði TR.

IMG_7855

Hettupeysudrengurinn Vignir Vatnar lagði liðsfélaga sinn Björn Hólm.

Röð efstu manna er sú að Jón Viktor er með 5 vinninga en á eftir honum koma Stefán Kristjánsson og Dagur Ragnarsson með 4,5 vinning. Fimm kappar eru með fjóra vinninga. Nú ætti að styttast í áhugaverðar viðureignir eins og milli Jóns Viktors og Stefáns. Fastlega má gera ráð fyrir að þeir berjist til síðasta blóðdropa þegar sú viðureign á sér stað.

Af óvæntum úrslitum má nefna að Þorsteinn Magnússon (1325) vann Óskar Víking Davíðsson (1655), Mykhaylo Kravchuk (1504) heldur áfram að gera góða hluti og hélt jöfnu gegn Björgvini Víglundssyni (2203). Stephan Briem (1360) gerði jafntefli við Jón Úlfljótsson (1794). Blikastrákarnir eru í mikilli bætingu og standa sig vel.
Lokaskák fimmtu umferðar fer fram nú á mánudagskvöld og verður pörun sjöttu umferðar ljós að henni lokinni. Úrslit hennar hafa þó ekki áhrif á pörun efstu manna og er ljóst að á efsta borði mun Jón Viktor hafa hvítt gegn Degi og þá stýrir Stefán hvítu mönnunum gegn Jóni Trausta Harðarsyni (2059).

IMG_7852

Hinn ungi og efnilegi Róbert Luu hefur byrjað vel í mótinu.

Allir velkomnir á miðvikudagskvöld að fylgjast með baráttunni. Skákir fyrstu og annarar umferðir eru núþegar komnar á netið en stutt er í að fleiri komi. Laugarlækjastrákarnir Aron Þór Mai, Alexander Oliver Mai og Daníel Ernir Njarðarson sjá um að slá inn.