Jólamót SFS og TR – Tvöfaldur sigur Rimaskóla í yngri flokki



Þann 2. desember fór hið árvissa Jólaskákmót Skóla-og frístundasviðs og Taflfélags Reykjavíkur fram. Þetta skákmót var nú haldið í 30. sinn. Ólafur H. Ólafsson, ötull félagsmaður í Taflfélagi Reykjavíkur, fyrrum skákþjálfari og fyrrverandi formaður í T.R., hefur verið skákstjóri á þessum mótum frá upphafi og var því í dag skákstjóri á Jólaskákmótinu í 30. sinn!

 

Frá árinu 1983 – 2010 var þetta skákmót kallað Jólaskákmót ÍTR og TR. En eftir skipulagsbreytingar hjá Reykjavíkurborg færðist mótið frá Íþrótta-og tómstundasviði yfir til Skóla-og frístundasviðs og heitir því Jólaskákmót SFS og TR. Skákmótið er tvískipt og er fyrir skáksveitir frá grunnskólum Reykjavíkur, annars vegar fyrir aldursflokkinn frá 1.-7. bekk og hins vegar fyrir aldursflokkinn frá 8.-10. bekk.

 

Í dag var teflt í yngri flokki en það eru nemendur úr 1.- 7. bekkjum grunnskólanna og á morgun verður teflt í eldri flokki. Veitt voru verðlaun fyrir þrjár efstu drengjasveitirnar (eða opnu sveitirnar, þar sem sveitirnar eru blandaðar stúlkum og drengjum). Einnig voru þrenn verðlaun fyrir stúlknasveitir, en að þessu sinni var aðeins ein stúlknasveit meðal þátttakenda. Eitthvað sem skólastjórnendur í grunnskólum Reykjavíkur svo og skákhreyfingin öll geta íhugað. Skemmtilegt væri ef þátttaka stúlkna í skákmótum yfirleitt og þá sérstaklega í þessum Jólaskákmótum fyrir grunnskólanemendur í Reykjavík væri til jafns við þátttöku drengjanna. En í dag voru af ca. 80 keppendum um 10 stúlkur meðal þátttakenda.

 

Teflt var í einum flokki, 6 umferðir eftir Monradkerfi með 15 mínútna umhugsunartíma. 17 sveitir voru skráðar til leiks.

 

Rimaskóli bar sigur úr býtum í báðum flokkunum, en eina stúlknasveit mótsins kom einmitt frá Rimaskóla. Stúlknasveitin lenti einnig í 4. sæti í heildarmótinu með 14 vinninga. A-sveit Rimaskóla fékk 21,5 vinning af 24 mögulegum. Melaskóli varð í 2. sæti í mótinu með 19,5 vinning. Kelduskóli fékk bronsverðlaunin með 14,5 vinning.

 

Fyrstu þrjár sveitirnar í drengjaflokki/opnum flokki fengu medalíur og sigursveitirnar eignabikar og svo farandbikar til varðveislu fram að næsta Jólaskákmóti.

 

Jólaskákmótið fór mjög vel fram. Soffía Pálsdóttir frá SFS kom með hljóðkerfi með sér sem kom sér mjög vel! Með hljóðnema í hönd veittist skákstjórum léttara en ella að ná til keppenda og halda utan um gang mótsins. Meðal keppenda voru mörg börn sem þegar hafa töluverða reynslu í keppni á skákmótum, svo lítið var um vafaatriði á meðan mótinu stóð sem skákstjórar þurftu að skera úr um.

 

Birna Halldórsdóttir sá um veitingar á meðan mótinu stóð sem er ómissandi þáttur í skákmóti sem þessu sem tekur um þrjá og hálfan tíma. Margir foreldrar, systkini, afar og ömmur voru meðal áhorfenda sem setti skemmtilegan svip á mótið. 

 

Jólaskákmótið fór fram í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur. Mótsstjóri var Soffía Pálsdóttir, SFS. Skákstjórar voru Ólafur H. Ólafsson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, formaður Taflfélags Reykjavíkur.

 

Keppni í eldri flokki fer fram á morgun, mánudaginn 3. desember og hefst klukkan 17. Eins og í dag verður teflt í félagsheimili T.R., Skákhöllinni að Faxafeni 12.

 

Heildarúrslit í yngri flokki urðu sem hér segir:

 

1. Rimaskóli A-sveit                  22,5 v. af 24.

2. Melaskóli                             19,5 v.

3. Kelduskóli                            14,5 v.

4. Rimaskóli – stúlkur                14 v.

5. Rimaskóli B-sveit                  13 v.

6. Ölduselsskóli                       13 v.

7. Vesturbæjarskóli                  12,5 v.

8. Landakotsskóli                     12,5 v.             

9. Ingunnarskóli B-sveit 12 v.

10. Árbæjarskóli                       11,5 v.

11. Ingunnarskóli A-sveit           11,5 v.

12. Grandaskóli                        11 v.

13. Austurbæjarskóli                 11 v. 

14. Selásskóli                          10,5 v. 

15. Rimaskóli C-sveit                10 v. 

16. Foldaskóli                          9 v.

17. Ártúnsskóli                         8 v.  

 

Rimaskóli A sveit:

  1. Nansý Davíðsdóttir

  2. Jóhann Arnar Finnsson

  3. Kristófer Halldór Kjartansson

  4. Joshua Davíðsson

 

Melaskóli:

  1. Kolbeinn Ólafsson

  2. Ellert Kristján Georgsson

  3. Svava Þorsteinsdóttir

  4. Sigurður Kjartansson

  1. varam. Björn Ingi Helgason

  2. varam. Katrín Kristjánsdóttir

 

Kelduskóli:

  1. Hilmir Hrafnsson

  2. Sigurður Bjarki Blumenstein

  3. Styrmir Rafn Ólafsson

  4. Hilmir Sigurðsson

1.   varam. Andri Gylfason

 

Rimaskóli-stúlkur:

  1. Svandís Rós Ríkharðsdóttir

  2. Heiðrún A. Hauksdóttir

  3. Ásdís Birna Þórarinsdóttir

  4. Tinna Sif Aðalsteinsdóttir

 

Pistill og myndir: Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir