Jóladagatal TR – #10 Gluggagægir



Á hverjum degi til jóla birtist ein skákþraut á taflfelag.is. Alls verða þrautirnar þrettán talsins, í takt við jólasveinana. Síðasta þrautin mun birtast á Þorláksmessu. Þeir sem ná að leysa þrautirnar geta skilað lausnunum á netfangið bivark@gmail.com í síðasta lagi kl. 20:00 að kvöldi Jóladags, 25. desember. Fram þarf að koma nafn þess sem sendir lausnirnar inn. Dregið verður úr bestu lausnunum og sigurvegarinn fær veglegan jólaglaðning. Jóladagatal TR er ætlað öllum þeim sem eru áhugasamir um skák.

gluggagaegir

Mynd: Búi Kristjánsson

Gluggagægir er mjög forvitinn skákmaður. Forvitnin kemur honum stundum í koll því hann er svo spenntur að fá að vita hvað andstæðingurinn er að hugsa að hann fer oft viljandi út í fléttur og gildrur sem lagðar eru fyrir hann. Á Skákþingi Gluggahreinsara síðastliðinn vetur, sem haldið var í Hörpu, fékk Gluggagægir að taka þátt sem boðsgestur. Hann hefur alltaf verið mikill áhugamaður um glugga svo það lá beinast við að bjóða honum þegar keppendafjöldinn stóð á stöku. Gluggagægir hafði svart gegn Skúla sköfu, ólseigum skákmeistara úr Vestmannaeyjum. Skúli hafði síðast leikið hvítum riddara beint í dauðann á e5 og Gluggagægir gat ekki setið á sér að komast að því út á hvað fórnin gekk svo hann drap riddarann samstundis með sínum riddara, sem stóð á d3.

gluggagaegir-stodumynd

Hvernig svaraði Skúli skafa með hvítu mönnunum sem leiddi til máts uppi í borði í 2 leikjum?