Haustmót Taflfélags Reykjavíkur er hafið



Í dag hófst eitt af stórmótum ársins þegar tefld var fyrsta umferð í Hausmóti Taflfélags Reykjavíkur. Fimmtíu og átta keppendur eru skráðir til leiks að þessu sinni sem er mesti fjöldi keppenda í mótinu síðan 2010, en mótið á nú áttatíu ára afmæli. Keppt er í þremur lokuðum flokkum A, B og C og einum opnum flokk D. Nokkuð mikið var um frestanir og yfirsetur í fyrstu umferð sem til eru komnar vegna Norðurlandamóts barnaskólasveita sem nú fer fram á Selfoss.

Í A flokki eru margir reyndir meistarar í bland við yngri og upprennandi skákmenn.  Fide meistararnir Davíð Kjartansson og Þorsteinn Þorsteinsson eru stigahæstir en sá síðarnefndi er nú að taka þátt í haustmótinu í fyrsta sinn síðan 1979. Gamla kempan og alþjóðameistarinn Sævar Bjarnason sem nýverið gékk í raðir Taflfélags Reykjavíkur lætur sig að sjálfsögðu sig ekki vanta frekar en Gylfi Þórhallsson en þeir tveir hafa teflt flestar kappskákir af öllum hér á landi. “Rimaljónin” þrjú eru öll með, Oliver Aron Jóhannsson, Dagur Ragnarsson og sigurvegari B flokksins í fyrra, Jón Trausti Harðarson. Jón Árni Halldórsson er að sjálfsögðu mættur til leiks og flokkinn fylla svo þeir Kjartan Maack og Þorvarður F. Ólafsson. Þeir tveir síðastnefndu ásamt Sævari Bjarnasyni eru allir félagsmenn í Taflfélagi Reykjavíkur og munu býtast um sæmdarheitið og titilinn Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur. Kjartan Maack ber þann titil núna eftir frækna frammistöðu á mótinu í fyrra.

Í fyrstu umferð var viðureign Davíðs og Jóns Trausta frestað meðan Dagur og Kjartan, Þorsteinn og Gylfi sem og Þorvarður og Sævar skildu jafnir.  Eina sigurskákin kom í viðureign Olivers og Jóns Árna, en þar bar fyrrnefndi sigur úr býtum.

B flokkurinn er athyglisverður. Þar eru stigahæstir Spánverjinn Damia Morant Benet (2058) og Þjóðverjinn Christopher Vogel (2011) sem lítið er vitað um! Þeir stunda báðir nám í Háskóla Íslands og gengu nýverið í Taflfélag Reykjavíkur. Verður gaman að fylgjast með framgöngu þeirra. Meðal annarra keppenda í flokknum eru efnilegir strákar á borð við Gauta Pál Jónsson, Björn Hólm Birkisson og Dawid Kolka.

Bárður Örn Birkisson er stigahæstur í C flokknum og ætlar sér eflaust ekkert nema sigur. Fleiri ungir og efnilegir skákmenn sem gaman verður að fylgjast með eru í þessum flokk. Þar má nefna Guðmund Agnar Bragason, Felix Steinþórsson og skákprinsessuna Nansý Davíðsdóttur. Meðal annarra í þessum flokki má nefna félagana úr Vinaskákfélaginu Hauk Halldórsson og Hjálmar Sigurvaldason sem láta sig sjaldan vanta á mót í Feninu.

Tuttugu og átta keppendur eru í opna flokknum. Þar má finna fjölmarga krakka sem eru að taka þátt í fyrsta, eða einu af fyrstu kappskákmótum sínum. Þar á meðal eru margir sem tóku þátt í fyrsta móti Bikarsyrpu Taflfélagsins um seinustu helgi og demba sér nú út í djúpu laugina með því að taka þátt í Haustmótinu. Það verður gaman að fylgjast með hvernig þeim reiðir af í baráttunni við nokkrar eldri og reynslumeiri kempur, t.a.m Björgvin Kristbergsson og Olaf Evert Ulfsson sem er nú að tefla eftir langt hlé.

Úrslit í öllum flokkum má nálgast hér.

Hægt er að nálgast skákir fyrstu umferðar í flokkum A-C hér.

Önnur umferð Haustmótsins fer fram á miðvikudagskvöldið og hefst kl. 19.30. Allir skákáhugamenn velkomnir og hið rómaða Birnukaffi að sjálfsögðu opið!