Guðmundur teflir á Big Slick skákmótinu



Guðmundur Kjartansson (2388) heldur áfram markmiði sínu á að rjúfa 2400 stiga múrinn til að öðlast alþjóðlegan meistaratitil en þriðja og síðasta áfanganum náði hann á First Saturday mótinu sem lauk fyrir skömmu.

Nú tekur Guðmundur þátt í móti sem enski stórmeistarinn, Simon Williams, stendur fyrir í London.  Mótið dregur nafn sitt af pókerklúbbi þar sem skákirnar fara fram og teflir Guðmundur í lokuðum og nokkuð sterkum stórmeistaraflokki þar sem stigahæsti keppandinn er með 2517 skákstig.  Tíu keppendur eru í flokknum og tefla allir við alla, níu umferðir.  Til að ná stórmeistaraáfanga þarf 7 vinninga og 5,5 til að ná alþjóðlegum áfanga.

Eftir tvær umferðir hefur Guðmundur ekki komist á blað en í fyrstu umferð beið hann lægri hlut gegn enska alþjóðlega meistaranum, Jack Rudd (2357), og í þeirri annarri tapaði hann fyrir rússneska stórmeistaranum, Alexander Cherniaev (2423).

Á morgun, mánudag, hefur Guðmundur hvítt gegn stigahæsta keppanda flokksins, enska stórmeistaranum, Keith Arkell (2517), eftir að hafa stýrt svörtu mönnunum í fyrstu tveim umferðunum.

Heimasíða mótsins