Guðmundur Kjartansson með lokaáfangann að stórmeistaratitli!



Guðmundur_Kjartansson2

Guðmundur Kjartansson úr TR náði í dag lokaáfanga sínum að stórmeistaratitli á alþjóðlegu móti í Litháen með sigri í áttundu og næstsíðustu umferð.  Gummi er búinn að standa sig gríðarlega vel á mótinu og er langefstur með 6 1/2 vinning, heilum vinning á undan næstu mönnum.

Guðmundur hefur sýnt ótrúlega elju og ástundun  við skákborðið á undanförnum árum og enginn af okkar meisturum hefur teflt jafnmargar kappskákir á þessum tíma. Hann er glæsileg fyrirmynd fyrir okkar breiða hóp ungmenna sem stundar skáklistina af kappi í Feninu og frábært að sjá hann nú uppskera eftir þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í skákina.

Við hjá Taflfélagi Reykjavíkur óskum Gumma til hamingju með áfangann og erum afar stolt af því að hafa getað aðstoðað hann á leiðinni að settu marki.  Nú er einungis tímaspursmál hvenær 2500 stiga múrinn verður rofinn sem þarf til að Guðmundur verði útnefndur stórmeistari.