Guðmundur Gíslason einn efstur í Skákþinginu!



Gauti Páll Jónsson skrifar

 

Skákþing Reykjavíkur hefur farið vel af stað með miklum sviptingum í síðustu umferðum! Í gærkvöldi lagði Guðmundur Gíslason (2315) Sævar Bjarnason (2114) og er því einn efstur með fullt hús eftir fjórar umferðir. Stórmeistarabaninn Þorvarður Fannar Ólafsson (2245) og Fjölnismaðurinn Oliver Aron Jóhannesson (2170) gerðu jafntefli á öðru borði en þeir unnu báðir titilhafa í umferðinni á sunnudaginn. Úrslitin á efstu borðum voru flest eftir bókinni en þó má nefna jafntefli hjá Hallgerði Þorsteinsdóttur (1992) og Omari Salama (2282) og jafnteflið hjá Birni Þorfinnssyni (2373) og Ólafi Gísla Jónssyni (1871).

 

Í öðru til fimmta sæti með 3 1/2 vinning eru Dagur Ragnarsson (2059), Oliver, Þorvarður og Dagur Arngrímsson (2368)

 

Eitthvað var um að ungu skákmennirnir væru að stríða þeim fullorðnu og reita af þeim stig og vinninga. Arnór Ólafsson (1000) vann Héðinn Briem (1464) og Aron Þór Mai (1262) vann John Ontiveros (1810). Aron heldur því áfram að brillera og er kominn í 86 stiga plús eftir að hafa eldað steikta lifur handa andstæðingi sínum. Í árás steiktu lifrarinnar fórnar hvítur riddara á f7 og svartur neyðist til að hafa kónginn á miðborðinu þar sem hægt er að ráðast á hann.

 

Í fimmtu umferð sem fer fram næstkomandi sunnudag verða margar spennandi skákir en blásið verður til leiks kl. 14! Á fyrsta borði fær Dagur Arngrímsson að tefla við hinn ósigraða Guðmund Gíslason. Þorvarður Fannar og Dagur Ragnarsson tefla á öðru borði en þeir Jóhann Ingvason og Oliver tefla á því þriðja. Stórmeistarinn Stefán Kristjánsson (2492) er skammt frá toppnum en hann teflir við Örn Leó Jóhannsson (2048) á fjórða borði. Fjölmennum í Faxafenið á sunnudaginn og gæðum okkur á nýjungum á matseðli Birnu, pönnukökum og kókosbollum! Í erfiðum skákum getur reynst vel að fá orkuna beint í heilann þar sem hann meltir stöðuna á borðinu sem getur verið ansi snúin!

  • Úrslit, staða og pörun
  • Dagskrá og upplýsingar
  • Myndir
  • Skákþing Reykjavíkur 2014
  • Skákmeistarar Reykjavíkur
  • Mótstöflur