Góð eldskírn Gauta Páls í GeorgíuHinn ungi og efnilegi Gauti Páll Jónsson tók þátt í Evrópumóti ungmenna sem fór fram í Batumi í Georgíu dagana 19.-28. október.  Var þetta í fyrsta sinn sem Gauti teflir á erlendri grundu en hann tefldi í flokki 16 ára og yngri og var númer 82 í stigaröð 89 keppenda.

Á miklu flugi að undanförnu hefur hinn sókndjarfi og tungulipri fjörkálfur sankað að sér allmörgum Elo-stigum í síðustu viðureignum.  Formaður Taflfélags Reykjavíkur er einn þeirra sem fallið hafa í valinn og ku enn glíma við vandamál í kjölfar meðferðar hins sakleysislega ljóshærða pilts.

Gauti Páll var raunsær og jarðtengdur þegar hann hélt eystra.  Hann gerði sér engar grillur um væntanlegan árangur og sagði að nú yrði fyrst og fremst fyllt upp í risastórt reynsluhólfið.  Gauti hafði líka góðan félagsskap reyndari pilta, þeirra Olivers Arons Jóhannessonar og Dags Ragnarssonar, sem báðir hafa marga fjöruna sopið utan landsteinanna.  Símon Þórhallsson, ungur og efnilegur Akureyringur, var líka með í för, en líkt og Gauti, var hann að upplifa erlenda taflmennsku í fyrsta sinn.  Með drengjunum í för var lærimeistari þeirra, stórmeistarinn og mennska tölvan, Helgi Ólafsson.  Hann sá um að halda mönnum á jörðinni og tjáir þeim að eigi skuli óttast útlenska drengi þótt þeir beri löng og ógnvænleg nöfn.

Gauti stóð sig vel í mótinu þrátt fyrir að tefla upp fyrir sig í öllum níu umferðunum, barðist í hverri skák, og svo var stúderað með Helga.  Eftir aðeins hálfan vinning í fyrstu fjórum umferðunum reis ungi TR-ingurinn upp og sagði hingað og ekki lengra.  Í kjölfarið fylgdu þrír sigrar í næstu fjórum viðureignum, einn þeirra gegn skákmanni með ríflega 2100 Elo-stig.  Glæsilegt!

Þegar tjaldið var fellt hafði Gauti Páll nælt sér í 3,5 vinning og plantað sér í 67.-74. sæti.  Fyrir það vann hann sér inn 77 verðskulduð Elo-stig en árangurinn samsvarar 1942 stigum og stutt er í að 1900-stiga múrinn rofni.  Aðeins tveir andstæðingar Gauta höfðu minna en 2000 stig og þrír þeirra höfðu meira en 2100 stig.  Sannarlega dýrmætt mót að baki!

Símon stóð sig mjög vel í flokki Gauta, hlaut 4 vinninga og hækkar um 113 stig.  Oliver tefldi í sama flokki en Dagur tefldi í flokki 18 ára og yngri en báðir hafa átt betri mót og lækka nokkuð á stigum.  Oliver hlaut 5 vinninga og Dagur 3,5 vinning.

Sigurvegari í flokki 16 ára og yngri var Tyrki með alþjóðlega meistaratign og einmitt rosalega langt og merkilegt nafn, Cemil Can Ali Marandi, en hann hlaut 7,5 vinning.  Heimamaður og Pólverji komu næstir með 7 vinninga.

Flottur árangur hjá Gauta Páli sem er til alls líklegur á komandi misserum!

  • Chess-Results