Óstöðvandi Hjörvar Steinn sigurvegari WOW air mótsinsNýjasti stórmeistari Íslendinga, Hjörvar Steinn Grétarsson, er sigurvegari WOW air mótsins – Vormóts Taflfélags Reykjavíkur 2014.  Hjörvar tryggði sér sigurinn í gærkvöldi þegar hann lagði alþjóðlega meistarann Guðmund Kjartansson í sjöttu og næstsíðustu umferðinni og er því enn með fullt hús vinninga.  Stórmeistararnir Hannes Hlífar Stefánsson og Þröstur Þórhallsson koma næstir með 4 vinninga ásamt hinum unga og efnilega Degi Ragnarssyni.  Hannes Hlífar sigraði alþjóðlega meistarann Dag Arngrímsson, Þröstur vann Fide meistarann Ingvar Þór Jóhannesson og Dagur R fékk frían vinning gegn stórmeistaranum Stefáni Kristjánssyni.

Guðmundur og Sigurður Páll Steindórsson eru í næstu sætum með 3,5 vinning.  Lokaumferðin fer fram næstkomandi mánudagskvöld og þá mætast m.a. Hjörvar og Þröstur, Dagur R og Hannes Hlífar sem og Sigurður og Guðmundur.  Fyrsti stórmeistari Íslendinga, Friðrik Ólafsson sem hefur 3 vinninga, mætir Magnúsi Teitssyni og stýrir svörtu mönnunum að þessu sinni.

Í B flokki leiðir Magnús Pálmi Örnólfsson enn og hefur nú 5 vinninga eftir jafntefli gegn Kjartani Maack sem er næstur með 4 vinninga ásamt Hrafni Loftssyni og hinum mjög svo unga Vigni Vatnari Stefánssyni sem sýnir enn og aftur hversu efnilegur skákmaður hann er.  Hrafn sigraði bróður sinn, Arnald, en Vignir Vatnar vann Loft Baldvinsson.  Jafnir með 3,5 vinning eru Torfi Leósson, Örn Leó Jóhannsson og Gauti Páll Jónsson sem hefur staðið sig mjög vel og hækkar mikið á stigum.

Í lokaumferðinni stýrir Vignir Vatnar svörtu mönnunum gegn Magnúsi Pálma í afar athyglisverðri viðureign og þá mætast m.a. liðsfélagarnir Hrafn og Kjartan.

Athygli er vakin á því að verðlaunaafhending mun fara fram þriðjudagskvöldið 20. maí kl. 20.

  • Úrslit, staða og pörun: A flokkur   B flokkur
  • Skákir: 1  2  3  4  5  6  7
  • Myndir
  • Wow air mótið