Glæsilegur árangur TR-drengja á Íslandsmóti unglingaPáll Andrason (1550) og Örn Leó Jóhannsson (1728), báðir úr Taflfélagi Reykjavíkur, urðu efstir og jafnir með 7 vinninga á Íslandsmóti unglinga 15 ára og yngri sem lauk síðastliðinn sunnudag.  Þeir munu því heyja einvígi um titilinn síðar.

Páll og Örn fylgja þar með eftir góðum árangri á nýafstöðnu Haustmóti þar sem Páll varð þriðji í c-flokki og Örn sigraði í d-flokknum með miklum yfirburðum.

Þrjú af fimm efstu sætunum voru skipuð TR-ingum því glókollurinn, Eiríkur Örn Brynjarsson (1648) varð í 3.-5. sæti með 6,5 vinning.

Staðan fyrir lokaumferðina var æsispennandi þar sem hinn 10 ára norðlendingur, Jón Kristinn Þorgeirsson, leiddi ásamt Páli með 6,5 vinning en Örn var þriðji með 6 vinninga.  Jón Kristinn tapaði síðan fyrir Guðmundi Kristni Lee (1496) en Páll gerði jafntefli við annan norðlending, Mikael Jóhann Karlsson (1702) og Örn sigraði Aðalstein Leifsson.  Þar með skutust Páll og Örn upp á toppinn.  Eiríkur Örn vann sömuleiðis og tryggði sér þar með skipt þriðja sæti eins og fyrr segir.

Fjórði TR-ingurinn var síðan ekki langt undan því Birkir Karl Sigurðsson (1580) varð í 7.-11. sæti með 5 vinninga.

Stjórn Taflfélags Reykjavíkur óskar strákunum til hamingju með þennan glæsilega árangur!

Mótið var haldið af Skákfélagi Akureyrar.

  • Heimasíða SA
  • Chess-Results
  • Myndaalbúm mótsins