Dramatískri Bikarsyrpu III lokiðÍ dag lauk þriðju Bikarsyrpu Taflfélags Reykjavíkur og var sem fyrr vel mætt í félagsheimilið að Faxafeni 12. Skákmeistarar framtíðarinnar glímdu af miklu kappi og varð mótið fyrir vikið viðburðaríkt. Eftirminnileg tilþrif sáust í öllum umferðum; fléttur og fórnir, djúpir pósar, hörku svíðingar, tímahrak, hrikalegir afleikir, ólöglegir leikir og síðast en ekki síst spenntir foreldrar á kaffistofunni sem sötruðu bragðvont kaffi -kurteisislega- á meðan þau biðu örlaga barna sinna.

IMG_4622

Frá 1.umferð Bikarsyrpu III.

Benedikt Briem, sem fyrr í vetur vann Bikarsyrpu II, hélt áfram að hrekkja andstæðinga sína á taflborðinu og vann fyrstu fjórar skákirnar. Þá skyndilega sveif jafnteflisandinn yfir hann og síðustu þrjár skákir hans enduðu með jafntefli. Það dugði Benedikt til sigurs í mótinu og lauk hann tafli með 5,5 vinning. Sannarlega glæsileg frammistaða hjá Benedikt sem nú rýkur upp metorðastiga skákarinnar, dyggilega studdur af bróður sínum, Stephani Briem, sem fylgdist með skákum litla bróður af miklum áhuga.

Halldór Atli Kristjánsson tefldi á efstu borðum allt mótið og tapaði ekki skák. Hann vann þrjár viðureignir og gerði fjögur jafntefli, og skiluðu þessir 5 vinningar honum 2.sæti. Í 3.sæti varð Örn Alexandersson einnig með 5 vinninga.

Magnaðir meistarar.

Guðmundur og Kristján Dagur Jónsson fóru taplausir í gegnum mótið en voru engu að síður hálfum vinningi á eftir Halldóri Atla og Erni. Guðmundur gerði fimm jafntefli í sjö skákum og Kristján Dagur gerði þrjú jafntefli í fimm skákum.

Benedikt Briem hækkar mest allra á stigum eftir mótið eða um alls 63 stig. Örn Alexandersson nældi sér í 46 stig og þeir Kristján Dagur Jónsson og Árni Ólafsson hækka um 38 stig. Sæmundur Árnason hækkar um 37 stig og Adam Omarsson bætir við sig 28 stigum.

IMG_4624

Spennandi skák í stúlknaflokki.

Jafnteflisandinn tók sér bólfestu víða í skáksalnum, einkum þó á efstu borðum. Jafnteflin hafa aldrei verið fleiri í Bikarsyrpu en alls voru þau 16 talsins. Til samanburðar þá voru 5 jafntefli samin í síðustu Bikarsyrpu. Sum jafnteflin að þessu sinni voru samin í stöðum þar sem heilmikið líf var og mörg óleyst verkefni. Er það eilítið áhyggjuefni og veltir upp þeirri spurningu hvort taka þurfi upp 30 leikja regluna í Bikarsyrpunum. Gárungarnir velta nú fyrir sér hvort nýafstaðið heimsmeistaraeinvígi eigi þátt í að fjölga jafnteflum þessa helgina. Áhrif fyrirmynda eru margslungin.

Nánari upplýsingar um mótið má nálgast á chess-results.