Bragi Þorfinnsson til liðs við Taflfélag Reykjavíkur



Alþjóðlegi skákmeistarinn  Bragi Þorfinnsson er genginn í raðir Taflfélags Reykjavíkur.  Hann kemur úr Taflfélagi Bolungarvíkur þar sem hann hefur alið manninn síðan 2008 og varð íslandsmeistari með félaginu í fjórgang árin 2009, 2010, 2011 og 2012.

Bragi_Þorfinnsson2Bragi stimplaði sig rækilega inn er hann varð Ólympíumeistari með U16 landsliði Íslands árið 1995. Hann varð alþjóðlegur meistari árið 2003.  Bragi var meðal sigurvegara á skoska meistaramótinu með 7 vinninga af 9 árið 2012.  Ári síðar kom fyrsti stómeistaraáfanginn eftir frábæra frammistöðu í ensku deildakeppninni (4NCL).

Bragi hefur sigrað á fjölmörgum mótum hérlendis og mun styrkja Taflfélag Reykjavíkur mikið á komandi skákvertíð.  Fyrsta verkefni hans með félaginu verður að verja meistaratitil félagsins í Hraðskákkeppni taflfélaga sem hefst nú í byrjun ágúst.

Hann er annar meistarinn sem gengur í raðir félagsins á þessu sumri, en áður hafði stórmeistarinn Henrik Danielsen komið til félagsins frá Taflfélagi Vestmannaeyja.

Taflfélag Reykjavíkur býður Braga hjartanlega velkominn í sínar raðir og óskar honum góðs gengis á komandi vertíð!