Bragi Halldórsson sigurvegari á hraðskákmóti öðlinga



Hraðskákmót öðlinga, sem Taflfélag Reykjavíkur stendur fyrir ár hvert, fór fram í gærkveld í skákhöll félagsins að Faxafeni 12.  Mikil spenna var allt mótið og mjög skemmtilegt stemning myndaðist enda eru öðlingamótin sérstök að því leyti að þátttaka er þeim aðeins heimiluð sem náð hafa 40 ára aldri.

Eitt af því skemmtilega við þessi mót er að á þeim leiða saman hesta sína margir sterkir skákmenn af “eldri” kynslóðinni sem sjást alltof sjaldan á öðrum mótum í íslensku skáklífi.  Inn á milli má þó að sjálfsögðu líka finna fastagesti annarra móta.

Eftir að tefldar höfðu verið 2x 7 umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma varð niðurstaðan sú að Hellisbúinn, Bragi Halldórsson (2205), og hinn rauðbirkni TR-ingur, Ríkharður Sveinsson (2025), urðu efstir og jafnir með 10 vinninga hvor.  Þrefaldan stigaútreikning þurfti til að útkljá sigurvegara sem reyndist vera Bragi og hlýtur hann því nafnbótina Hraðskákmeistari öðlinga 2009.  Skammt á eftir þeim félögum kom Jóhann H. Ragnarsson (2060) úr Taflfélagi Garðabæjar með 9,5 vinning.

Um miðbik hraðskákmótsins var gert hlé og verðlaunaafhending fyrir öðlingamótið fór fram en því lauk viku fyrr.  Eins og fyrr hefur verið greint frá sigraði Björn Þorsteinsson (2204) þar með 6 vinninga af 7 en hann var í 5.-8. sæti á hraðskákmótinu með 8,5 vinning.  Jafnframt gafst þátttakendum kostur á að gæða sér á einhverjum þeim flottustu veitingum sem sést hafa í húsnæði félagsins og að sjálfsögðu er það hin elskulega Birna Halldórsdóttir, heiðursfélagi TR, sem á heiðurinn af þeim.  Veitingarnar voru án endurgjalds og hurfu hið snarasta ofan í stóra sem litla maga keppenda.

Skákstjóri var, eins og svo oft áður, hinn skeleggi og mjög svo viðkunnanlegi, Ólafur S. Ásgrímsson, en honum til aðstoðar var ekki síðri gullmoli, Páll Sigurðsson úr Taflfélagi Garðabæjar.

Myndir frá mótinu má finna hér.

Lokastaðan:

1-2  Bragi Halldórsson  2205 10   47.5  63.5   40.0

      Ríkharður Sveinsson 2025 10  47.5  63.5   38.5

  3   Jóhann Hjörtur Ragnarsson 2060 9.5 

  4   Vigfús Óðinn Vigfússon 1930 9   

 5-8  Björn Þorsteinsson 2180 8.5   

      Kristján Örn Elíasson 1885 8.5

      Gunnar Freyr Rúnarsson 1985 8.5

      Frímann Benediktsson 1785 8.5  

9-10  Eiríkur Kolbeinn Björnsson 1980 8

      Valgarð Ingibergsson 1730 8       

11-15 Sæbjörn Guðfinnsson 1915 7       

      Birgir Rafn Þráinsson 1610 7    

      Magnús Matthíasson 1700 7      

      Magnús Gunnarsson 2055 7      

      Grigorianas Grantas 1575 7       

16-17 Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir 1685 6.5   

      Þór Valtýsson 2025 6.5   

18-19 Halldór Pálsson 1850 6      

      Jón Úlfljótsson 1695 6      

 20   Haukur Halldórsson 1495 5      

 21   Páll Sigurðsson 1905 4.5    

 22   Björgvin Kristbergsson 1215 4       

 23   Pétur Jóhannesson 1035 2