Björn Þorfinnsson með stórmeistaráfanga í Bunratty!



Alþjóðlegi meistarinn síkáti Björn Þorfinnsson náði sínum öðrum áfanga að stórmeistaratitli á alþjóðlegu skákmóti í Bunratty á Írlandi í dag. Hann tefldi þar í tíu manna lokuðum flokki og fór mikinn. Hann tryggði stórmeistaraáfangann með því að gera jafntefli við Íslandsvininn Luis Galego í næstsíðustu umferð. Björn sigraði með yfirburðum á mótinu en hann hlaut 7 vinninga af 9 mögulegum og var heilum tveimur vinningum á undan næsta manni, alþjóðlega meistaranum Lawrence Trent.

Árangurinn er einn sá glæsilegasti sem íslenskur skákmaður hefur náð á erlendri grundu í langan tíma eða upp á 2679 Elo skákstig og skilar meistaranum aftur yfir 2400 skákstig. Árangurinn tryggir honum einnig sæti á Evrópumeistarmóti einstaklinga á næsta ári.

En fleiri meistarar úr Taflfélagi Reykjavíkur eru á faraldsfæti. EM einstaklinga í ár er haldið í Ísrael og hefst á morgun. Þar taka þátt stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson og íslandsmeistarinn Guðmundur Kjartansson. Gaman verður að fylgjast með gengi þeirra þar, en Guðmundur hefur t.d. í vetur höggvið oftar en einu sinni afar nærri þriðja og síðasta stórmeistaraáfanga sínum.

Þá hefur alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson farið mikinn undanfarið. Hann sigrað á Skákþingi Reykjavíkur sem lauk um síðustu mánaðarmót og er einn efstur fyrir lokaumferðina á gestamóti Hugins og Breiðabliks sem líkur í Stúkunni næstkomandi fimmtudagskvöld.

TR-ingarnir Vignir Vatnar Stefánsson og Svava Þorsteindóttir urðu síðan í dag Barna og unglingameistarar Reykjavíkur á vel sóttu og æsispennandi móti sem fram fór í skákhöll félagsins í dag.  Ítarleg frétt um mótið er væntanleg á morgun.

Ekki er hægt að segja annað en að afreksmenn félagsins séu í toppformi þessi misserin og spennandi verður að fylgjast með þeim í komandi átökum. Allir munu þeir taka þátt í Reykjavíkurmótinu sem hefst eftir rúmar tvær vikur og síðan Íslandsmóti skákfélaga. Þar leiðir Taflfélagið í þremur deildum af fjórum og gæti með góðri frammistöðu í seinni hlutanum hæglega sigrað í öllum deildum.

Taflfélag Reykjavíkur óskar Birni til hamingju með áfangann, Hannesi og Guðmundi góðs gengis á EM sem og Jóni Viktori í lokaumferð gestamótsins!

Og síðast en ekki síst Vigni Vatnar og Svövu með titlana í dag!