Björn Þorfinnsson í Taflfélag Reykjavíkur!



Alþjóðlegi meistarinn Björn Þorfinnsson er genginn til liðs við Taflfélag Reykjavíkur frá Víkingaklúbbnum. Björn hóf skákferilinn með TR á unga aldri og snýr því nú aftur á æskuslóðirnar. Björn hefur í rúmlega tvo áratugi verið einn virkasti mótaskákmaður landsins og í seinni tíð einn sá sigursælasti.

 

Helstu afrek:

–          Margfaldur Norðurlandameistari í skólaskák með liðum Æfingaskóla KHÍ og MR

–          Ólympíumeistari með U16 ára landsliði Íslands 1995

–          Skákmeistari Reykjavíkur í þrígang (2003, 2011-2012)

–          Íslandsmeistari í atskák 2008

–          Stórmeistaraáfangi á SÞÍ 2013

–          Margfaldur sigurvegari á helstu innanlandsmótum landsins

Helstu súrsætu augnablikin sem enginn man nema Björn sjálfur:

–          Tvisvar í öðru sæti Landsliðsflokks SÞÍ (2010, 2013 (tap í aukakeppni))

–          Þrisvar í öðru sæti Hraðskáksmóts Íslands, þar af tvö töp í aukakeppnum

–          Að tapa GM-norma skákum í röð á alþjóðlegu móti í Rúmeníu 2010 (skjálftinn sko)

Minnistæðustu tragedíur Björns:

–         Að komast stoltur inn á skákstigalistann í fyrsta sinn á síðustu öld og detta útaf honum svo aftur eftir afkáralega frammistöðu í opnum flokki HTR (2,5 af 11 samkvæmt skeikulu minni)  Litli bróðir Björns vann hinsvegar flokkinn með 8,5 af 11 (samkvæmt skeikulu minni) sem gerði upplifunina talsvert erfiðari fyrir kappann. Ekki er vitað um marga sem hafa dottið útaf íslenska stigalistanum útaf getuleysi

–          Björn á óstaðfest heimsmet með því að tapa 43 FIDE-stigum í aðeins þremur skákum á Meistaramóti Hellis 2004 (tölfræðilegt hámark er 45 stig)

Taflfélag Reykjavíkur er gríðarlega stolt og ánægt með að hafa endurheimt þennan litríka, og skemmtilega sóknarskákmann í félagið og óskum honum til hamingju með yfirvegað og fagmannlegt val fyrir framtíð sína við skákborðið.  Hann verður væntanlega prufukeyrður í úrslitum Hraðskákkeppni taflfélaga  og svo komið fyrir á viðeigandi stað í deildarkeppninni sem er framundan.