Big Slick pistill GuðmundarGuðmundur Kjartansson hefur tekið saman pistil um þátttöku sína á nýafstöðnu Big Slick skákmóti í London.

Big Slick

Nú er annað mótið í þriggja móta skáktúr mínum lokið og skoska meistaramótið framundan þar sem ég tek þátt ásamt Aroni Inga Óskarssyni.  Big Slick mótið fór fram í London þar sem ég er staddur nú og er þetta í fyrsta skipti sem Íslandsvinurinn góðkunni  og stórmeistarinn Simon Williams heldur alþjóðlegan skákviðburð. Mótið stóð yfir í níu daga, frá 27.júní-5.júlí og var ein skák tefld á dag.

Ég kom til London frá Búdapest 25.júní eða tveimur dögum fyrir mót. Systir mín, hún María, sem býr hérna úti tók á móti mér og hef ég fengið að dvelja hjá henni þennan tíma sem ég hef verið hér, svo loksins fékk ég heimatilbúinn mat eftir allt skyndibitaátið í Búdapest.  María fór svo heim til Íslands nokkrum dögum síðar svo ég hef þurft að reyna sjálfur fyrir mér í eldhúsinu, en það hefur gengið upp og niður. Mótið byrjaði á laugardeginum og þurfti ég að leggja snemma af stað þar sem mótið var haldið í einu af úthverfum Lundúnaborgar og þurfti að taka lest þangað, svo ferðin á mótsstað gat tekið einn til einn og hálfan tíma. Mótsstaður var lítill pókerklúbbur eða spilavíti og fær mótið, Big Slick nafnið, frá því. Tíu skákmenn tóku þátt í lokuðum flokki og þar af fjórir stórmeistarar en samhliða var haldið opið fimm umferða FIDE mót þar sem okkar eini sanni Jorge Fonseca sýndi góða takta og gerði m.a. jafntefli við enska stórmeistarann Jonathan Rowson. Mótið fór þó ekki jafn vel af stað hjá mér en ég uppskar þrjú erfið töp og var tapið gegn rússneska stórmeistaranum Alexander Cherniaev í annarri umferð einkar sárt. Þar var ég sælu peði yfir og með tæknilega unna stöðu en mjög vitlaus ákvörðun um að skipta upp á drottningum þegar ég var undir smá tímapressu flækti málin og var erfitt tap niðurstaðan. Eftir þessa slöku byrjun mætti ég enska Fide meistaranum Robert Eames með svörtu og lenti snemma í erfiðri stöðu en með jafnteflisboði á réttu augnabliki náði ég að bjarga mér fyrir horn. Næstu fjórar skákir enduðu með jafntefli þó að ég væri alltaf tilbúinn fyrir bardaga  og neitaði m.a. jafntefli í tveimur þeirra. Mér tókst að jafna nokkuð auðveldlega í áttundu umferð með svörtu gegn hinum vingjarnlega stórmeistara og Portúgalsmeistara Luis Galego sem ákvað að bjóða mér jafntefli á mínum tíma enda virtist hann vera með hugann við eitthvað annað en skákina. Í níundu og síðustu umferð mætti ég tvítugum félaga mínum Peter Poobalasingam sem var stigalægstur keppenda en engu að síður búinn að gera góða hluti og var ekki langt frá sínum fyrsta alþjóðlega áfanga. Ég mætti í skákina staðráðinn í að leggja félaga minn, enda á maður fáa vini þegar að skákborðinu er komið. Eftir nokkuð eðlilega byrjunarleiki var ég kominn með þægilegri stöðu en í stað þess að halda eðlilegu flæði í skákinni þar sem ég gæti skapað fín færi með lítilli hættu, tókst mér að leika skákinni niður á mjög klaufalegan hátt og sá um leið hvað ég hafði gert. Eftir þetta slaka gengi verður að teljast ólíklegt að ég nái markmiði mínu um að komast yfir 2400 stig í þessari ferð en engu að síður mikilvægt að halda dampi og koma sterkur til baka í næsta mót. Það sem mér fannst helst vanta hjá mér í þessu móti var líklega einbeitingin og tókst mér aldrei að komast í réttan gír. Tel ég það vera stærri þátt en taflmennskan, þó að hún hafi heldur ekki verið upp á sitt besta, en það gat verið þreytandi að ferðast með lestinni a.m.k. klukkustund hvern dag.

Þó að skákdísirnar hafi ekki verið á mínu bandi í þetta skiptið hef ég engu að síður notið þess að vera hér í London og það var jafnan þægileg stemmning og gott andrúmsloft yfir mótinu. Fyrir síðustu umferð afhenti dómarinn Símoni plagg sem staðfesti að hér með væri hann orðinn alþjóðlegur mótshaldari og veit ég ekki betur en að það standi til hjá honum að halda fleiri mót og jafnvel reglulega. Nú ætla ég hinsvegar að fara að sofa þar sem lest til Edinborgar bíður mín í fyrramálið!!