Aasef Alashtar og Jon Olav Fivelstad öflugir í atskákinni!Ekki náðist að gera síðustu tveimur atskákmótunum sem voru á fimmtudagana 13. og 20. feb. skil í fréttum hér vegna tímabundinna tæknilegra örðugleika. Skemmst er frá því að segja að Frakkinn geðþekki Aasef Alashtar rauf sigurgöngu Jon Olavs Fivelstad sem hafði byrjað 2020 á nokkrum snörpum sigrum og vann bæði mótin. Lokastöðu, sem og einstök úrslit á fyrra mótinu má sjá hér og á því seinna hér. Rétt er að geta þess að Jon Olav tók ekki þátt í seinna mótinu því þá var hann kominn til Kragerö í Noregi til að sinna skákdómgæslu.
Jon var hins vegar mættur tvíefldur á atskákmótið sem fram fór í gær og vann en héðan í frá verða mótin á þriðjudögum eins og var í sumar og haust. Athygli vakti, að Logi Sigurðarson náði þriðja sæti á sínu fyrsta „raunverulega“ móti en hann hefur einkum teflt á netinu hingað til.
Nánar um lokastöðu og úrslit á mótinu í gær má sjá á chess-results.
Næsta þriðjudagsmót verður síðan 3. mars í friði og ró því ráðist hefur verið í hljóðeinangrandi framkvæmdir í sal TR.
Mótin hefjast sem sagt kl. 19:30 sérhvern þriðjudag (héðan í frá!) í Skákhöll TR í Faxafeni. Tefldar eru fjórar umferðir, tímamörk eru 15 mínútur með 5 sekúndna viðbótartíma og reiknast mótin til atskákstiga.