Ziska með áfanga að stórmeistaratitli



Hinn dyggi liðsmaður Taflfélags Reykjavíkur, alþjóðlegi meistarinn Helgi Dam Ziska (2468) tryggði sér í dag sinn fyrsta áfanga að stórmeistaratitli í næstsíðustu umferð Riga Open í Lettlandi.  Þá tefldi hann 110 leikja maraþonskák við úkraínska stórmeistarann Júrí Vovk (2608) og náði að lokum jafntefli sem tryggði honum áfangann.

Helgi er búinn að tefla mjög vel á mótinu, mætt 6 stórmeisturum og ekki tapað skák.  Frammistaða hans samsvarar 2655 stigum og eins og er hefur hann safnað heilum 20 skákstigum í sarpinn. 

Í lokaumferðinni á morgun mætir hann ungverska stórmeistaranum Imre Hera (2567). 

Taflfélag Reykjavíkur óskar Helga til hamingju með áfangann.

 

Næsta mót sem Helgi mun taka þátt í er stórmeistaramót Taflfélags Reykjavíkur sem hefst í haust. Þangað mun hann eflaust mæta vígreifur og sækja stíft annan áfanga sinn að stórmeistaratitli.

  • Chess-Results