WOW air mótið: Úthlutun boðssæta



Farið hefur verið yfir fjölda umsókna um boðssæti á Wow air mótinu.  Valið var erfitt, enda fjölmargir mjög frambærilegir skákmenn sem sóttu um.  Við þökkum öllum þeim sem sóttu um sætin og hvetjum þá sem ekki komust að að þessu sinni eindregið til að sækja aftur um að ári, hafi þeir þá ekki þegar náð tilskyldum mörkum til þátttöku.

 

Eftirtaldir skákmenn hafa verið valdir til að fylla boðssætin sex í Wow air mótinu:

1. Oliver Aron Jóhannesson (2115)

Það var ekki flókið að veita þessum pilti sæti í A flokk.  Oliver er einn af okkar allra efnilegustu skákmönnum og hefur þrátt fyrir ungan aldur náð eftirtektarverðum árangri við skákborðið.  Of langt mál yrði að rekja öll afrek hans en nefna má að Oliver var valinn íþróttamaður Fjölnis 2013, varð hraðskákmeistari Reykjavíkur 2013 og árið áður náði hann þriðja sæti á HM áhugamanna í Porto Carras.  Við bjóðum Oliver velkominn í A flokk Wow air mótsins.

2. Dagur Ragnarsson (2105)

Dagur líkt og Oliver er mikið efni.  Hann er margfaldur Norðurlandameistari í skólaskák með sveit Rimaskóla og varð Íslandsmeistari í skólaskák 2012. Dagur hefur sýnt það á síðustu misserum að hann á fullt erindi í A flokkinn, nú seinast með mjög góðri frammistöðu á Reykjavík Open.  Við bjóðum Dag velkominn í A flokk Wow air mótsins.

3. Vignir Vatnar Stefánsson (1844)

Vigni þarf vart að kynna. Þrátt fyrir mjög ungan aldur (11) er afrekalistinn orðinn mjög langur og trúlega er Vignir eitt mesta skákefni sem komið hefur fram á Íslandi.  Hann er margfaldur Íslandsmeistari og Reykjavíkurmeistari í sínum aldursflokki, Norðurlandameistari í fyrra, og hlaut silfurverðlaunin í ár.  Hann hefur verið að sýna styrk langt yfir 2000 stigin á mótum undanfarið og það var ekki erfið ákvörðun að veita honum sæti í B flokk Wow air mótsins. Við bjóðum hann velkominn þangað!

4. Gauti Páll Jónsson (1620)

Gauti Páll var í sveit TR sem varð Íslandsmeistari unglingasveita 2013 og hefur teflt mikið undanfarið.  Fáir eru jafnáhugasamir um skák og styrkur hans við skákborðið er á hraðri uppleið.  Hann tefldi afskaplega vel á Reykjavíkurmótinu þar sem hann var með stigaárangur upp á nær 2000 stig og 40 stig komu í hús.  Við bjóðum Gauta Pál velkominn í B flokk Wow air mótsins.

5. Björgvin Smári Guðmundsson (1960)

Björgvin hefur látið sig skákmál á suðurlandi miklu varða seinustu ár og er núverandi formaður og skákmeistari Skákfélags Selfoss og nágrenins.  Hann náði eftirtektarverðum árangri á Boðsmóti GM Hellis í ár (r.p. tæp 2200 stig) þar sem hann gerði m.a. jafntefli við Lenku og sigraði Eina Hjalta.  Við bjóðum Björgvin sérstaklega velkominn í B flokk Wow air mótsins.

6. Veronika Steinunn Magnúsdóttir (1600)

Veronika er stúlknameistari T.R. og Reykjavíkur, ásamt því að hafa teflt á 2. borði í sigursveit Taflfélagsins á Íslandsmóti unglingasveita.  Hún tefldi í ár á Gibraltar Open þar sem hún stóð sig feykilega vel og var með stigaárangur uppá yfir 2000 stig.  Veronika teflir mikið, er í augljósri framför og verður glæsilegur fulltrúi kvenþjóðarinnar í B flokki Wow air mótsins.