Vignir Vatnar sigurvegari á fyrsta móti Hraðskákmótaraðar TR með 12,5v af 14



20180126_201642

Á sjálfum skákdeginum, afmælisdegi Friðriks Ólafssonar, fór fram fyrsta mótið í Hraðskákmótaröð TR sem er nýtt mót í fjölbreyttri mótaflóru Taflfélagsins. 15 vaskir skákgarpar mættu, sumir að tefla fjórða daginn í röð, enda eru Skákþing Reykjavíkur og MótX mótið í gangi, auk þess sem Íslandsmótið í Fischer random fór fram daginn áður. Þetta eru sterk mót, 2000+, en það er líka nóg að hafa einhvern tíman á ferlinum rofið téðan 2000 stiga múr. Auk þess fá nokkrir gestir með minna en 2000 stig að taka þátt, en í þetta sinn voru það Páll Andrason, Róbert Luu, Arnljótur Sigurðsson og Óskar Long Einarsson.

Vignir Vatnar Stefánsson fékk 12,5 vinning af 14 en það þykir ansi gott í þetta sterku hraðskákmóti. Stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson, sem lagði svo skemmtilega til að fjölga umferðum svo allir tefldu við alla, var í öðru sæti með 10,5 vinning. Þriðji varð Dagur Ragnarsson með 10 vinninga.

Kjartan Maack sá um skákstjórn og gekk mótið hratt og snurðulaust fyrir sig. Næsta mót fer fram föstudaginn 23. febrúar en teflt verður síðasta föstudag hvers mánaðar fram að vori.

Nánari upplýsingar um úrslit og lokastöðu má finna á Chess-Results.