Vignir Vatnar og Svava Unglingameistarar Reykjavíkur!



Barna-og unglingameistaramót Reykjavíkur sem og Stúlknameistaramót Reykjavíkur fór fram í skákhöll Taflfélags Reykjavíkur sunnudaginn 22. febrúar. Mótið var opið fyrir börn á grunnskólaaldri.

Þrenn verðlaun voru veitt fyrir þrjú efstu sætin í mótinu, þrenn verðlaun fyrir efstu stúlkur og svo aldursflokkaverðlaun í hvorum flokki fyrir sig (fædd 1999-2001, 2002-2003, 2004-2005 og 2006 og síðar). Þau sem eru búsett í Reykjavík eða eru félagar í reykvískum taflfélögum tefldu um titilinn Unglingameistari Reykjavíkur 2015 og Stúlknameistari Reykjavíkur 2015. Tefldar voru 7 umferðir með 15 mín. umhugsunartíma á skák í opna flokknum og í stúlknaflokki tefldu þær allar við alla 6 umferðir.

 

Þátttakendur voru 43 og var mótið vel skipað. Mörg af efnilegustu börnum og unglingum landsins voru með á mótinu.  Skemmtilegur gestur bættist við á mótinu en það var John G Ludwig frá Bandaríkjunum, sem er með 2205 Elo stig!  Hann tók snemma forystuna í opna flokknum, tefldi á 1. borði allt mótið og vann allar sjö skákirnar og þar með mótið!

 

Baráttan um unglingameistaratitilinn var gríðarlega jöfn og skemmtileg. Fyrir lokaumferðina var John G Ludwig efstur með fullt hús, en næstir honum komu Vignir Vatnar og Bárður Örn með 5 vinninga.  Vignir mætti Birni Hólm í seinustu umferð, meðan Bárður Örn fékk það erfiða verkefni að reyna að marka á Bandaríska meistarann.  Björn Hólm gerði sér lítið fyrir og vann Vigni og náði honum þar með að vinningum.  Allt var því undir í viðureign Bárðar og John G.  Ludwig.  Skákin var í járnum nær allan tímann og lentu báðir keppendur í ævintýranlegu tímahraki í lokin. Taflmenn flugu í allar áttir þegar báðir keppendur áttu einungis örfáar sekúndur eftir á klukkunni.  Svo fór að lokum að Bárður féll á tíma þegar John átti eftir eina sekúndu eftir!  Bárður var því einungis einni sekúndu frá því að vinna titilinn.

 

Hinn viðkunnalegi John G Ludwig sigraði því á mótinu með fullu húsi en sex keppendur komu honum næstir með fimm vinninga,  þeir Vignir Vatnar Stefánsson, Bárður Örn Birkisson, Björn Hólm Birkisson, Óskar Víkingur Davíðsson, Dawid Kolka og Mykhaylo Kravchuk. Stig réðu úrslitum og varð Vignir Vatnar í 2. sæti og Bárður Örn Birkisson í 3. sæti. Það varð því Vignir Vatnar Stefánsson sem varð Unglingameistari Reykjavíkur 2015, en hann hefur nú unnið titilinn þrjú ár í röð!  Það hefur ekki gerst síðan stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson sigraði 1990-1992.  Vignir Vatnar á enn eftir nokkur ár í þessum flokki og verður spennandi að sjá hvort honum tekst að bæta metið.  Það er þó ljóst að margir efnilegir skákmenn munu gera harða atlögu að titlinum á næstu árum líkt og raunin var í ár.

 

Í Stúlknameistaramótinu tóku 7 stelpur þátt og tefldu þær allar við alla. Tvær stúlkur komu hnífjafnar í mark, þær Ylfa Ýr Welding og Svava Þorsteinsdóttir. Spennan leyndi sér ekki er þær hófu að tefla tvær einvígisskákir um titillinn. Svava vann fyrri skákina og Ylfa Ýr lagði allt unir í seinni skákinni.  Eftir mikla baráttu vann þó Svava einnig seinni skákina. Hún sigraði því mótið og varð Stúlknameistari Reykjavíkur 2015. Í 3. sæti varð Vigdís Lilja Kristjánsdóttir. Stelpurnar sem tóku þátt eiga framtíðina fyrir sér, enda þær yngstu einungis 7 ára gamlar!

 

Báðir titilarnir, Unglingameistari Reykjavíkur 2015 og Stúlknameistari Reykjavíkur 2015 fóru eins og í fyrra til Taflfélags Reykjavíkur.

 

Flestir keppendur mótsins komu frá Taflfélagi Reykjavíkur eða 22. Keppendur frá Hugin voru 8, 2 frá Skákdeild Breiðabliks, 1 frá Víkingaklúbbnum, 1 frá Fjölni og 9 keppendur voru utan félaga.

Heildarúrslit er að finna hér

Veitt voru aldursflokkaverðlaun bæði í opnum flokki og stúlknaflokki.

Aldursflokkaverðlaun opinn flokkur:

 Fæddir 1999-2001: Bárður Örn Birkisson

Fæddir 2002-2003: Vignir Vatnar Stefánsson

Fæddir 2004-2005: Óskar Víkingur Davíðsson

Fæddir 2006 og síðar: Adam Salama, Stefán Orri Davíðsson

Aldursflokkaverðlaun stúlknaflokkur:

 Fæddar 1999-2001: Svava Þorsteinsdóttir

Fæddar 2002-2003: engin stúlka í þessum aldurshópi tók þátt

Fæddar 2004-2005: Ylfa Ýr Welding

Fæddar 2006 og síðar: Elsa Kristín Arnaldardóttir

Mótshaldari var Taflfélag Reykjavíkur. Skákstjórar voru Björn Jónsson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir. Birna Halldórsdóttir sá um veitingar á meðan mótinu stóð.

Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum keppendum fyrir þátttökuna og óskar þeim Vigni Vatnar og Svövu til hamingju með titlana!

  • Úrslit og lokastaða
  • Myndir