Vignir Vatnar og Rússarnir – sigur í 7. umferð



Fulltrúi Íslendinga á Heimsmeistaramóti ungmenna í Maribor, Slóveníu, Vignir Vatnar Stefánsson, sigraði enn einn Rússann í dag.  Vignir hafði svart og kemur sér aftur í efri hlutann með þessum góða sigri en andstæðingur hans hafði byrjað mjög vel í mótinu.  Það þarf vart að taka fram að enn eina ferðina var Vignir Vatnar að tefla upp fyrir sig en að þessu sinni var andstæðingur hans tæpum 200 stigum hærri.

 

Sigurinn færir Vigni upp í 32.-51. sæti en hann hefur hlotið 4,5 vinning og ávallt teflt upp fyrir sig nema í fyrstu umferðinni.  Árangur Vignis hingað til jafngildir 1849 elo stigum og stigagróðinn stendur í 34 stigum.  Þess má geta að Vignir er með 1595 stig.

 

Hinn níu ára gamli Vignir Vatnar virðist ætla að sérhæfa sig í taflmennsku gegn Rússum því í áttundu umferð mætir hann fimmta Rússanum í röð þar sem okkar maður hefur hvítt.  Rússinn sá heitir Egor Sedykh og er með 1821 elo stig.  Líkt og Vignir hefur hann tapað tveimur skákum en gerði m.a. jafntefli við stigahæsta keppanda flokksins.  Rússinn er með mun færri skákir skráðar á sig en Vignir, um 90, og gerir einnig fá jafntefli.  Hann er með óvenju hátt vinningshlutfall með svart, eða rúm 50%, mun hærra en með hvítt.  Vignir er hinsvegar sterkur með hvítt en hann mun augljóslega þurfa að hafa sig allan við í skák morgundagsins sem hefst kl. 14 að íslenskum tíma.  Strákurinn virðist fullur sjálfstrausts og sigur á morgun kæmi honum í verulega góða stöðu.

 

Hér að neðan hafa bæst við skákir Vignis úr 4. og 5. umferð.

  • Heimasíða mótsins
  • Úrslit, staða og pörun
  • Beinar útsendingar
  • Skák Vignis úr 1. umf
  • Skákir Vignis úr 2. og 3. umf
  • Skákir Vignis úr 4. og 5. umf