Vignir Vatnar Stefánsson varð rétt í þessu Norðurlandameistari í skólaskák í flokki 11 ára og yngri. Vignir sigraði Danann Aleksander Flaesen í lokaumferðinni og hlaut 5,5 vinning í sex viðureignum. Glæsilegur tvöfaldur íslenskur sigur vannst í flokki Vignis því Nansý Davíðsdóttir hafnaði í öðru sæti með 4,5 vinning en yfirburðir þeirra voru nokkrir í flokknum.
Sigur Vignis í lokaumferðinni var öruggur og aldrei í hættu en hann fékk snemma betra tafl með hvítu mönnunum þar sem teflt var drottningarbragð. Staða Vignis var allan tímann betri og Daninn gat sig lítið hreyft í þröngri og varnarsinnaðri stöðunni. Hægt og örugglega gekk Vignir frá bráðinni, náði að lokum óstöðvandi sókn og landaði þar með Norðulandameistaratitlinum glæsilega. Vignir Vatnar er vel að sigrinum kominn en hann gerði aðeins eitt jafntefli en vann hinar fimm viðureignir sínar. Tólf keppendur voru í flokki Vignis sem var þeirra stigahæstur. Keppt var í fimm aldursflokkum og átti Ísland alls ellefu fulltrúa en lokastöðu þeirra ásamt öllum úrslitum má nálgast á Chess-Results. Stjórn Taflfélags Reykjavíkur óskar Vigni Vatnari til hamingju með Norðurlandameistaratitilinn en þess má geta að Vignir varð nýverið Íslandsmeistari barna svo það er vel við hæfi að hann fylgi honum eftir af slíkum myndarbrag.