U-2000 mótið hófst í gærU-2000 mót Taflfélags Reykjavíkur hófst í gærkveld en þetta er í fjórða sinn sem mótið er haldið síðan það var endurvakið fyrir þremur árum. Áður hafði mótið verið haldið fjórum sinnum á árunum 2002-2005 en það hefur mælst vel fyrir hjá skákmönnum og að þessu sinni eru keppendur 39 talsins, þeirra stigahæstir Haraldur Baldursson (1984) og nafni hans Haraldur Haraldsson (1958). Skammt undan kemur svo hinn norsk-ættaði Jon Olav Fivelstad (1928). Það má því segja að það sé skemmtilegur norskur snúningur á toppnum enda form af nafninu Haraldur vel þekkt úr sögunni og kannski frægasta tilvikið þegar konungur Englands, Harold Godwinson, stóð af sér innrás konungs Noregs, Harald Hardrada, á því sögufræga ári 1066 skömmu áður en hann mætti örlögum sínum gegn Vilhjálmi sigursæla í baráttunni um Hastings. Hvort aðfarirnar í U-2000 mótinu verði jafn blóðugar skal ósagt látið en ljóst er að frammundan er skemmtilegt og spennandi mót!

Kynslóðirnar mætast! 73 árum munar á þeim Bjarti og Guðmundi.

Kynslóðirnar mætast. 73 árum munar á þeim Bjarti og Guðmundi.

Fyrsta umferð bauð upp á mikla spennu og margar góðar viðureignir. Þrátt fyrir að stigamunur manna í milli væri talsverður og úrslit þar af leiðandi nokkuð eftir bókinni komu sigrarnir síður en svo án fyrirhafnar í hús enda lauk taflmennskunni ekki fyrr en skömmu fyrir miðnætti. Nefna má að Tryggvi K. Þrastarson (1315) og Svavar Viktorsson (1764) gerðu jafntefli og þá vildi svo skemmtilega til að annar af yngstu keppendum mótsins, Bjartur Þórisson fæddur 2009, mætti aldursforsetanum, Guðmundi Aronssyni (1573) fæddum 1936. Á þeim köppum er því hvorki meira né minna en 73 ára aldursmunur og er þetta skemmtilegt dæmi um það að skákin brúar svo sannarlega kynslóðirnar. Stóð barátta þeirra yfir í 2,5 klst og sættust þeir að lokum á skiptan hlut. Töluvert er af ungum og efnilegum keppendum og verður gaman að fylgjast með framgangi þeirra gegn hinum eldri og reynslumeiri.

Önnur umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst stundvíslega kl. 19.30. Áhorfendur er hvattir til að líta við í Skákhöllina og berja herlegheitin augum ásamt því að gæða sér á ljúffengum veigum í Birnu-kaffi. Alltaf heitt á könnunni!

Skákir mótsins ásamt öllum úrslitum og stöðu má finna á Chess-Results.