TR ungmenni sigursæl á Íslandsmótinu



Taflfélag Reykjavíkur eignaðist fjóra nýja Íslandsmeistara um liðna helgi er Íslandsmót ungmenna var haldið í Rimaskóla; þrjár stúlkur og einn pilt. Er upp var staðið stóðu tíu TR ungmenni á verðlaunapalli. Bárður Örn Birkisson (15-16 ára), Svava Þorsteinsdóttir (15-16 ára), Batel Goitom Haile (9-10 ára) og Soffía Arndís Berndsen (8 ára og yngri) eru öll nýkrýnd Íslandsmeistarar í sínum aldursflokkum.

 

Flokkur 15-16 ára

TR nældi í tvö gull og eitt silfur í flokki 15-16 ára. Bárður Örn Birkisson hlaut 4,5 vinning í skákunum fimm og vann nokkuð öruggan sigur. Hann leyfði aðeins eitt jafntefli, gegn bróður sínum Birni Hólm Birkissyni. Björn Hólm fékk 3 vinninga og endaði í 2.sæti. Svava Þorsteinsdóttir lét það ekki aftra sér frá þátttöku í mótinu að vera eina stúlkan í flokknum og töluvert stigalægri en aðrir keppendur. Hún tefldi vel og gerði jafntefli við Dawid Kolka sem er nærri 600 kappskákstigum hærri en Svava.

Barður

Bárður Örn Birkisson vann glæsilegan sigur í flokki 15-16 ára.

IMG_3211

Svava Þorsteinsdóttir er Íslandsmeistari stúlkna í flokki 15-16 ára.

 

Flokkur 13-14 ára

Alexander Oliver Mai, sem hefur farið mikinn á Haustmóti TR undanfarnar vikur, hlaut 5 vinninga í sjö skákum og nældi sér í bronsverðlaun í flokki 13-14 ára. Arnar Milutin Heiðarsson, sem átti titil að verja eftir stórbrotna frammistöðu á mótinu árið á undan, fékk 3 vinninga og hafnaði í 6.sæti. Íslandsmeistari varð Stephan Briem úr Breiðablik en hann lauk tafli með 6 vinninga. Nansý Davíðsdóttir úr Fjölni varð Íslandsmeistari stúlkna en hún fékk 4,5 vinning.

IMG_7554

Alexander Oliver Mai var fremstur TR-inga í flokki 13-14 ára með 5 vinninga í sjö skákum.

 

Flokkur 11-12 ára

Róbert Luu nældi sér í silfurverðlaun í flokki 11-12 ára með því að fá 7 vinninga í níu skákum. Róbert tapaði aðeins einni skák, gegn Óskari Víkingi Davíðssyni úr Skákfélaginu Hugin sem að lokum stóð uppi sem Íslandsmeistari með fullt hús vinninga. Þeir Kristján Dagur Jónsson, Árni Ólafsson og Tristan Theodór Thoroddsen fengu allir 4,5 vinning sem skilaði þeim í 8.-15.sæti. Ylfa Ýr Welding Hákonardóttir úr Fjölni varð Íslandsmeistari stúlkna en hún fékk 3,5 vinning.

IMG_4173

Róbert Luu hafnaði í 2.sæti með 7 vinninga í níu skákum.

 

Flokkur 9-10 ára

Benedikt Þórisson var í toppbaráttu mótsins fram í síðustu umferð og endaði að lokum með 5 vinninga í 5.-8.sæti. Jafn honum að vinningum var Vignir Sigur Skúlason sem settist að tafli á ný eftir nokkurt hlé. Það kom skemmtilega á óvart að sjá Vigni á meðal keppenda og gaman að sjá að pilturinn hefur engu gleymt. Alexander Björnsson fékk 4,5 vinning og var í námunda við toppinn allt mótið. Stefán Orri Davíðsson úr Skákfélaginu Hugin varð Íslandsmeistari eftir aukakeppni við Gunnar Erik Guðmundsson úr Breiðablik.

IMG_8693

Benedikt Þórisson var í toppbaráttunni allt mótið og lauk tafli með 5 vinninga.

Batel Goitom Haile vann allar sínar níu skákir og er því Íslandsmeistari stúlkna í flokki 9-10 ára. Freyja Birkisdóttir varð að gera sér 2.sætið að góðu með 8 vinninga eftir hreina úrslitaskák gegn Batel. Iðunn Helgadóttir og Elsa Kristín Arnaldardóttir stóðu sig með miklum ágætum og fengu báðar 4 vinninga.

IMG_8698

Batel Goitom Haile vann allar 9 skákir sínar.

 

Flokkur 8 ára og yngri

Hinn 7 ára gamli Bjartur Þórisson tefldi vel í flokki 8 ára yngri og í toppbaráttunni allt mótið. Hann lauk tafli í 4.-10.sæti með 4 vinninga eftir að hafa mætt tveimur efstu mönnum mótsins í síðustu tveimur umferðunum. Bjartur á enn eitt ár eftir í þessum flokki og er því til alls líklegur að ári. Jafn Bjarti með 4 vinninga var Bjarki Steinn Guðlaugsson. Íslandsmeistari varð Jökull Bjarki en hann vann allar sínar skákir.

IMG_8686

Bjartur Þórisson var hársbreidd frá verðlaunasæti.

 

Í stúlknaflokki röðuðu TR stúlkur sér í þrjú efstu sætin. Soffía Arndís Berndsen vann allar sínar skákir og er því Íslandsmeistari stúlkna 8 ára og yngri. Katrín María Jónsdóttir hlaut 5,5 vinning í 2.sæti og Anna Katarina Thoroddsen nældi sér í 5 vinninga og 3.sætið. Karen Ólöf Gísladóttir kom svo í humátt á eftir þeim stöllum með 3 vinninga í 5.sæti. Allar tefldu stelpurnar vel og þó þær hafi tekist hraustlega á við taflborðin þá var gleðin við völd og alltaf stutt í brosið. Þessar ungu og efnilegu stúlkur hafa allar sótt hinar sívinsælu stúlknaæfingar hjá Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur á laugardögum í félagsheimili TR.

IMG_8724

Verðlaunahafarnir þrír frá vinstri: Katrín María, Soffía Arndís og Anna Katarina.

 

Nánari upplýsingar um Íslandsmótið má finna á vef chess-results.

Myndir