Norðurlandamót ungmenna í skák hefst á morgun föstudag í Drammen, Noregi, og stendur til næstkomandi sunnudags. Alls taka þar þátt tíu glæsilegir fulltrúar Íslands, þar af fjórir vaskir TR-ingar; Vignir Vatnar Stefánsson (2384) er stigahæstur allra í mótinu og keppir í C-flokki (2002-2003), Hilmir Freyr Heimisson (2192) og Bárður Örn Birkisson (2175) keppa í B-flokki (2000-2001), og Robert Luu (1629) keppir í D-flokki (2004-2005). Auk þeirra munu þau Gunnar Erik Guðmundsson, Stefán Orri Davíðsson, Óskar Víkingur Davíðsson, Nansý Davíðsdóttir, Dagur Ragnarsson og Oliver Aron Jóhannesson spreyta sig gegn skandinavísku kollegunum.
Tíu keppendur taka þátt í hverjum flokki og verða tefldar sex umferðir með umhugsunartímanum 90 mínútur fyrir alla skákina auk 30 sekúndna viðbótar eftir hvern leik. Fyrsta umferð hefst á föstudagsmorgun kl. 8 að íslenskum tíma. Við í TR fylgjumst spennt með gengi hópsins og sendum baráttukveðjur til Noregs!