TR að tafli í Evrópukeppni taflfélaga



Frá skákstað í 3. umferð. Lið TR sést fyrir miðri mynd. Ljósmynd af heimasíðu mótsins.

Frá skákstað í 3. umferð. Lið TR sést fyrir miðri mynd. Mynd: heimasíða mótsins.

Taflfélag Reykjavíkur er þessa dagana að tefla í Evrópukeppni taflfélaga í Porto Carras í Grikklandi. Margir af bestu skákmönnum heims tefla á mótinu og þar á meðal er sjálfur heimsmeistarinn, Magnus Carlsen. Lið TR er í 19.sæti í styrkleikaröðinni með meðalstigin 2419. Alls tefla 61 lið í mótinu og er eitt annað íslenskt lið á meðal þátttakenda, Víkingaklúbburinn. Liðsmenn Taflfélags Reykjavíkur eru (í borðaröð): Guðmundur Kjartansson, Bragi Þorfinnsson, Oleksandr Sulypa, Margeir Pétursson, Arnar Gunnarsson og Omar Salama. Liðsstjóri er Kjartan Maack.

Sveit TR hefur farið ágætlega af stað í mótinu og hefur fjögur stig eftir þrjár umferðir. Í 1.umferð mætti TR liði frá Lúxemborg og hafði TR öruggan sigur 5,5-0,5. Í 2.umferð mætti TR sterku liði frá Zurich og vann TR nauman sigur 3,5-2,5 eftir mikla baráttu þar sem Margeir Pétursson og Bragi Þorfinnsson unnu sínar skákir. Í 3.umferð varð á vegi TR ofursveit frá Azerbaijan sem er þriðja stigahæsta sveit mótsins. Þetta lið er að mestu leyti það sama og tefldi fyrir Azerbaijan á nýafstöðnu Ólympíumóti í Batumi, Georgíu. TR tapaði öllum sex skákunum en var hársbreidd frá því að fá eitthvað fyrir sinn snúð því Guðmundur Kjartansson var afar nálægt því að halda jöfnu gegn Arkadij Naiditsch (2721). Þá átti Margeir Pétursson góða möguleika á að halda jöfnu gegn Gadir Guseinov (2629) en varð að lokum að leggja niður vopn eftir hörkuskák.

Í 4.umferð mætir TR öðru liði frá Lúxemborg og er TR stigahærra á öllum borðum. Því gefst kjörið tækifæri til þess að komast í námunda við efstu sveitir á ný með sigri.

Allar umferðir mótsins hefjast klukkan 12 að íslenskum tíma og hægt er að fylgjast með öllum skákunum í beinni útsendingu. Upplýsingar um stöðu og úrslit má finna á Chess-Results.