
Jósef Omarsson er einn fjölmargra ungra og efnilegra keppenda í U-2000 mótinu.
Tinna Kristín Finnbogadóttir er ein með fullt hús eftir þriðju umferð í U-2000 mótinu. Hún fékk frían vinning í þriðju umferðinni þar sem andstæðingurinn mætti ekki. Mjög jafnt er í öðru sæti þar sem tólf keppendur hafa 2,5 vinning. Af skákum gærkveldsins má nefna að á öðru borði tefldu Lisseth Acevedo og Loftur Baldvinsson þar sem skákin var alla tíð í jafnvægi og leystist upp í jafntefli snemma kvölds.
Ungu strákarnir Benedikt Þórisson, Arnar M. Heiðarsson og Páll Andrason hafa allir teflt mjög vel. Benedikt var hugsanlega í mátneti smástund í endataflinu en losnaði vel undan því og var með talsvert betra tafl sem Haraldi Baldurssyni tókst að lokum að stýra í jafntefli. Reynsluboltarnir Þór Valtýsson, Sigurjón Þ. Friðþjófsson og Kristján Ö. Elíasson mörðu allir sigur að lokum í frekar jöfnum skákum. Sigríður B. Helgadóttir missti niður vænlegt endatafli á móti Birni G. Stefánssyni og lenti í óverjandi mátneti.

Það gerist ekki oft að alnafnar mætist við skákborðið. Sá eldri sigraði að þessu sinni eftir harða baráttu.
Skondnasta pörunin í 3. umferð var Þorsteinn Magnússon gegn Þorsteini Magnússyni (sjá mynd). Þeir tefldu langa og góða skák þar sem hinn eldri sigraði með því að vera einum peðsleik á undan í kóngsendatafli. Joshua Davíðsson var lengi í bóndabeygju en vann að lokum eftir að andstæðingurinn hafði opnað glufu í peðastöðunni og hleypt kónginum innfyrir í stöðuna sína. Flestir eru nú komnir á blað eftir að Adam Omarsson, Guðrún Fanney Briem og Arnór Gunnlaugsson unnu góða sigra á neðstu borðum.
Fjórða umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30. Alltaf heitt á könnunni og gott andrúmsloft í Birnukaffi!