Þrír efstir á Vetrarmóti öðlinga – Sverrir Örn meistariEftir sviptingar á toppnum í síðustu umferðunum stóð Sverrir Örn Björnsson uppi sem sigurvegari að lokinni sjöundu og síðustu umferð sem fór fram í gær.  Sverrir vann Jóhann H. Ragnarsson en á sama tíma tapaði Sævar Bjarnason fyrir Halldóri Pálssyni en Gylfi Þórhallsson lagði Júlíus L. Friðjónsson.  Þetta þýddi að Sverrir varð hlutskarpastur eftir stigaútreikning en hann hlaut 5,5 vinning ásamt þeim Halldóri og Gylfa.  Vel gert hjá Sverri á sínu fyrsta öðlingamóti en hann tapaði ekki skák í mótinu, vann fjórar og gerði þrjú jafntefli.  Næstir á eftir þeim þremenningum með 5 vinninga voru Sævar og Þorvarður F. Ólafsson.

 

Árangur Sverris Arnar samsvarar  2251 skákstigi og hækkar hann um 14 stig.  Mesti stigagróðinn féll hinsvegar í hendur Halldórs að þessu sinni eða 16 stig en hann hefur verið í góðu formi eftir að hann hóf aftur taflmennsku eftir nokkurt hlé og nálgast nú 2100 stigamúrinn.  Þá hækkar Sævar um tíu stig og bætir því enn í sarpinn eftir mjög góða frammistöðu á Haustmótinu fyrr í vetur.

 

Skákstjórn var í öruggum höndum hins þaulreynda Ólafs S. Ásgrímssonar.

  • Lokastaða
  • Skákir: 1 2 3 4 5 6 (7. umf væntanleg)