Um síðastliðna helgi fór fram í Rimaskóla Íslandsmót ungmenna þar sem keppt var í nokkrum aldursflokkum. Flottur hópur barna frá mismunandi skákfélögum tók þátt og voru öflugir fulltrúar frá Taflfélagi Reykjavíkur þar á meðal.
Í eina stúlknaflokki mótsins, 9-10 ára (2007-2008), voru stelpur úr TR um helmingur keppenda. Stóðu þær sig alveg frábærlega og röðuðu sér í fimm af sex efstu sætunum, þ.á.m. þrjú efstu þar sem Batel Goitom Haile varð efst og þar með Íslandsmeistari stúlkna en silfrið hlaut Anna Katarína Thoroddsen og bronsið féll í skaut Soffíu Berndsen. Skammt undan komu síðan Iðunn Helgadóttir, Katrín María Jónsdóttir og Karen Ólöf Gísladóttir.
Í yngsta aldursflokknum (2009 og yngri) varð Bjartur Þórisson Íslandsmeistari og þá stóð hinn ungi Jósef Omarsson (f. 2011) sig feykivel og lauk keppni í fjórða sæti af tæplega tuttugu keppendum og sama má segja um Emil Kára Jónsson (f. 2010) sem endaði vel fyrir ofan miðju.
Þriðji Íslandsmeistarinn keppti svo í mjög sterkum flokki 11-12 ára (2005-2006) en það var hinn reynslumikli Róbert Luu sem kom í mark vinningi á undan næsta keppanda. Alls komu sex keppendur í þessum flokki úr TR og í honum landaði Freyja Birkisdóttir fjórða titlinum þar sem hún var efst stúlkna í flokknum.
Í opna flokki 9-10 ára átti TR líka sína fulltrúa og var Adam Omarsson efstur af þeim en hann gerði sér lítið fyrir og krækti í silfrið, aðeins hálfum vinningi á eftir efsta keppandanum.
Allt eru þetta krakkar sem hafa verið mjög iðnir við kolann að undanförnu og því engin tilviljun að hópurinn hafi farið heim með fjölda verðlaunapeninga í farteskinu. Við í TR óskum þeim til hamingju með glæsilegan árangur og fylgjumst spennt með framgangi þeirra við skákborðin á næstu misserum.