Þorvarður varði Öðlingameistaratitilinn



Þorvarður Fannar Ólafsson er Öðlingameistari annað árið í röð en hann vann sigur á Vigfúsi Ó. Vigfússyni í lokaumferð Öðlingamótsins síðastliðið miðvikudagskvöld.  Þorvarður hlaut 6 vinninga og tapaði ekki skák í mótinu.  Árangur hans jafngildir 2379 stigum sem færir honum 18 Elo stig í gróða en Þorvarður hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu og hækkað um tæp 130 stig á rúmu ári.  Hann hefur því sýnt vel að það eru fleiri en þeir yngstu sem geta tekið framförum á skömmum tíma.

 

Alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnason varð annar með 5,5 vinning og Fide meistarinn Sigurður Daði Sigfússon, Hrafn Loftsson og Friðgeir Hólm komu næstir með 5 vinninga.  Friðgeir hækkar um 28 stig fyrir sinn árangur.  Lokaröð keppenda má sjá í Chess-Results hlekknum hér að neðan.

 

Hraðskákmót öðlinga fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst það kl. 19.30.  Þar verður einnig verðlaunaafhending fyrir Öðlingamótið.

  • Chess-Results
  • Skákir