Þór, Tinna og Sigurjón efst á U-2000 mótinu



Fjórða umferð U-2000 mótsins fór fram í gærkveld og það er ljóst að það stefnir í mjög jafnt mót en Þór Valtýsson, Tinna Finnbogadóttir og Sigurjón Þór Friðþjófsson eru efst með 3,5 vinning og hvorki fleiri né færri en 13 keppendur hafa 3 vinninga.

Baráttan á pallinum er ávallt hörð.

Baráttan á pallinum er ávallt hörð.

Á efsta borði dugðu ekki tvö aukapeð hvíts til sigurs í skákinni á milli Lofts Baldvinssonar og Tinnu. Á öðru borði vann Sigurjón Þór Friðþjófsson mann á móti Haraldi Baldurssyni en hann þurfti samt að hafa fyrir vinningnum vegna þess að hann sat uppi með óvirkan mannskap lengi vel. Björn Grétar Stefánsson og Lisseth Acevedo tefldu athyglisvert peðsendatafl þar sem minnstu mistök hefðu endað með ósigri en að lokum sömdu þau jafntefli. Skák Páls Andrasonar og Hrundar Hauksdóttur var alla tíð í jafnvægi en það sama er varla hægt að segja um skákina á fimmta borði þar sem Kristján Örn Elíasson var með vænlega stöðu gegn Þór Valtýssyni sem varðist þó fimlega og hafði að lokum sigur eftir 80 leiki. Aðalsteinn Thorarensen var með glaðari mönnum eftir að hafa unnið Emil Sigurðarson. Þá tefldu Sigurður J. Sigurðsson og Björgvin Kristbergsson athyglisverða skák sem lauk með jafntefli og voru báðir ánægðir eftir skákina.

Óttar Örn vann góðan sigur á Sigurði Frey.

Óttar Örn vann góðan sigur á Sigurði Frey.

Ungmenni landsins láta ekki sitt eftir liggja í mótinu; Benedikt Þórisson hélt jöfnu gegn Haraldi Haraldssyni. Óttar Örn B. Sigfússon vann Sigurð Frey Jónatansson og Iðunn Helgadóttir hafði sigur á Lárusi H. Bjarnasyni.

Birnukaffi var á sínum stað – alltaf hægt að leita huggunar þar þegar staðan á taflborðinu er orðin erfið.

Fimmta umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30. Áhorfendur velkomnir!

Chess-Results