Teflt yfir náttmál á Öðlingamóti TR



Skeggöld, skálmöld, skildir eru klofnir. Vindöld, vargöld, áður veröld steypist, mun engi maður öðrum þyrma (úr Völuspá).

20190213_195729

Frá 1.umferð Öðlingamóts TR.

Þessi kveðskapur lýsir vel skákum annarrar umferðar Öðlingamóts TR. Þar kepptust á skákgarpar sem eiga það sameiginlegt að vera komnir á hinn fræga viskualdur, en þá tekur heilinn út mikinn þroska sem skilar sér í meiri skilningi á manntaflinu.

Af skákunum 22 enduðu þær flestar eftir bókinni góðu, þ.e að þeir stigahærri unnu þá stigalægri. Aðeins eitt jafntefli var samið en það var í skák þeirra Haralds Haraldssonar (1969) og Ólafs Bjarnasonar (1827). Eftir aðra umferð tróna þrír efstir með tvo vinninga, þeir Þorvarður Ólafsson (2199), Jóhann Ingvason (2175) og Haraldur Baldursson (1944). Í næstu umferð mætast Haraldur Baldursson og Þorvarður en Jóhann fær svart á Ólaf Bjarnason.

Búast má við hörðum orrustum næsta miðvikudagskvöld þar sem keppendur, auk gesta og gangandi munu öðlast aukinn mátt með skákmiðinum góða. Þessi skákmjöður er að sjálfsögðu hið sjóðandi heita Birnukaffi sem tendrar fram tafltöfra á reitunum 64 uns nóttin tekur við og biðin eftir næstu skák hefst – sem fyrir suma er daginn eftir! Því þá hefst Íslandsmót skákfélaga. Það er því nóg að gera hjá skákþyrstum öðlingum þessa dagana meðan myrkrið og vindurinn leikur um Skeifuna og nágrenni, þá er teflt fram yfir náttmál. Já, þá er svo sannarlega gott að tefla fram yfir náttmál.

Nánari upplýsingar um úrslit og stöðu mótsins má finna á Chess-Results. Á sama stað eru skákir mótsins aðgengilegar.