Vignir Vatnar tapaði fyrir Rússanum Vitaly Gurvich í sjöttu umferð HM ungmenna sem fór fram í dag. Vignir hefur engu að síður byrjað mjög vel og þegar keppni er hálfnuð situr hann í 48.-81. sæti með 3,5 vinning en allir andstæðingar hans hafa verið töluvert hærri á stigum að undanskilinni fyrstu umferð. Árangur Vignis hingað til í mótinu jafngildir 1801 elo stigi en sjálfur er hann með 1595 stig. Stigagróði Vignis er sem stendur 23 stig.
Dagskráin hefur verið stíf og nú tekur við langþráður frídagur á morgun þriðjudag en sjöunda umferð fer fram á miðvikudag og hefst kl. 14 að íslenskum tíma. Í henni stýrir Vignir svörtu mönnunum gegn fjórða Rússanum í röð, Arsen Mnatsakanian, en hann er með 1769 stig svo enn teflir Vignir upp fyrir sig. Andstæðingar Rússans í mótinu hafa allir nema einn verið lægri en hann á stigum en hann tapaði fyrir einum stigalausum og gerði jafntefli í síðustu umferð við keppanda með rúm 1600 stig, Samkvæmt Fide hefur Rússinn teflt mun færri skákir en Vignir en hefur það sameiginlegt með okkar manni að hafa mjög lágt jafnteflishlutfall. Það má því búast við hörkuskák þar sem við vonumst auðvitað til að Vignir Vatnar ljúki leik með sigur í farteskinu.
Nú hafa bæst við skákir Vignis úr 2. og 3. umferð og má nálgast þær hér að neðan.
- Heimasíða mótsins
- Úrslit, staða og pörun
- Beinar útsendingar
- Skák Vignis úr 1. umf
- Skákir Vignis úr 2. og 3. umf