Davíð með vinningsforskot í Haustmótinu



Davíð Kjartansson jók forskot sitt á toppi A-flokks í dag með sigri á alþjóðlega meistaranum Sævari Bjarnasyni. Á sama tíma varð Oliver að láta sér lynda jafntefli gegn Þorsteini Þorsteinssyni. Davíð hefur nú 5,5 vinning þegar tvær umferðir eru eftir, en Oliver er sem fyrr í 2.sæti heilum vinningi á eftir Davíð. Þorsteinn Þorsteinsson er jafn Oliver að vinningum með 4,5 vinning.

Í B-flokki er spennan mikil. Björn Hólm Birkisson gerði jafntefli í dag við Halldór Garðarsson í spennandi skák þar sem Björn Hólm sýndi hve úrræðagóður hann er við skákborðið er hann bjargaði nánast töpuðu tafli í jafntefli. Á sama tíma unnu Christopher Vogel og Damia Benet Morant sínar skákir. Björn Hólm, Damia og Christopher eru því efstir og jafnir með 5 vinninga. Í næstu umferð mætast svo Christopher og Björn Hólm.

Í C-flokki bar það helst til tíðinda að Bárður Örn Birkisson varð að láta sér lynda jafntefli í skák sinni við Hjálmar H. Sigurvaldason. Er það fyrsta skákin sem Bárður Örn vinnur ekki í mótinu. Bárður er sem fyrr efstur með 6,5 vinning en Felix Steinþórsson kemur næstur með 5,5 vinning. Þeir Bárður og Felix munu mætast í síðustu umferð mótsins í skák sem gæti ráðið úrslitum í C-flokki.

Ólafur Evert Úlfsson heldur áfram sigurgöngu sinni í D-flokki en hann lagði Kristófer Halldór Kjartansson í dag. Ólafur Evert hefur fullt hús en heilum vinning á eftir honum kemur Arnþór Hreinsson með 6 vinninga. Í þriðja sæti er Aron Þór Mai sem hefur teflt vel og stefnir allt í að hann hækki verulega á skákstigum eftir mótið.

Skákir 7.umferðar eru aðgengilegar hér.

Næsta umferð Haustmótsins og sú næstsíðasta fer fram á miðvikudagskvöldið og verða klukkur settar í gang klukkan 19:30.