Taflfélag Reykjavíkur 110 ára í dag!



Óttar Felix Hauksson skrifar:

 

Taflfélag Reykjavíkur er 110 ára í dag, elst allra skákfélaga í landinu.

Taflfélagið hefur lifað tvenn aldamót, staðið af sér alla storma, stendur enn hnarreist og horfir björtum augum fram á veginn. Stofnfélagar Taflfélagsins á haustdögum ársins 1900 voru ýmsir mektarmenn í höfuðstaðnum.

Má þar m.a. nefna Björn M. Ólsen, sem seinna varð okkar fyrsti háskólarektor, Einar Benediktsson skáld og athafnamann og  Pétur Zóphóníasson sem var fyrsti skákmeistari Íslands.

Engum blöðum er um það að fletta að það var fyrir hvatningu og  góðvilja Daniel Williard Fiske, bókavarðar og prófessors við Cornell háskóla í Bandaríkjunum, að stofnun Taflfélags Reykjavíkur varð að veruleika. Hann sendi  félaginu að gjöf taflmenn og borð, bækur og peninga. Þáttur Fiske í menningarsögu Íslands verður seint fullþakkaður, því auk þess að hvetja til skákiðkunar víða um land (m.a. norður í Grímsey), þá ánafnaði hann Cornellháskóla gífurlega dýrmætum bókakosti íslenskra bóka ásamt peningagjöf og  lagði þar grunn að rannsóknarstöðu í íslenskum fræðum sem var mönnuð nær alla síðustu öld.

Í hundrað og tíu ár hefur Taflfélag Reykjavíkur  verið helsti vettvangur skákiðkunar Íslendinga. Þúsundir ungmenna hafa fengið þar þjálfun í öllum þeim þáttum sem skáklistin býður uppá.  Rökvís hugsun, sjálfsagi, efling sigurviljans og félagslegur þroski  er veganesti sem hverjum manni er hollt að hafa með í för á  lífsleiðinni.

Skáksigrar Íslendinga á erlendri grund hafa, meira en margt annað, náð að sameina þjóðina og orðið henni lyftistöng. Ísland öðlaðist sjálfstæði 1944, er í rauninni ungt ríki og smátt í samfélagi þjóðanna. Án alls efa hefur árangur Friðriks Ólafssonar, Jóhanns Hjartarsonar og íslenska ólympuliðsins á alþjóðavettvangi, orðið til að skerpa sjálfstæðisvitund hnípinnar smáþjóðar sem var að byrja að fóta sig í menningarsamskiptum við stærri þjóðir upp úr miðri síðustu öld.

Sigrar þeirra fullvissuðu þjóðina um kraft sinn og getu til að eiga í fullu tré, í þessari aldagömlu og göfugu íþrótt hugans, við aðrar þjóðir, jafnvel þær sem eru mun stærri og fjölmennari. Góður árangur Íslands á nýafstöðnu ólympíumóti, bæði í opnum flokki og kvennaflokki, er til marks um að enn er gunnfánanum haldið hátt á lofti.

Í tilefni 110 ára afmælisins býður Taflfélagið til kaffisamsætis  í húskynnum félagsins að Faxafeni 12  í dag kl. 18 og eru allir skákmenn og velunnarar hjartanlega velkomnir.