Tæplega tuttugu TR-ingar á KORNAX mótinuÞegar KORNAX mótið – Skákþing Reykjavíkur er tæplega hálfnað er ekki úr vegi að kanna hvernig þátttakendur dreifast á milli skákfélaga.  Það þarf ekki að koma á óvart að Taflfélag Reykjavíkur eigi flesta fulltrúa á mótinu enda stærsta skákfélag landsins.  Þá er einnig gaman að sjá öfluga þátttöku frá Hellismönnum (12) og Fjölnismönnum (11) en öflugt barna-og unglingastarf Fjölnis sést vel á því að þátttakendur frá þeim eru allir af yngri kynslóðinni.

 

Garðbæingar eiga fimm fulltrúa, Víkingaklúbburinn/Þróttur, Skákfélag Íslands, og Skákfélag Akureyrar þrjá fulltrúa hvert félag og þá eiga KR-ingar, Akurnesingar, Goðinn-Mátar, Haukar og Vinjarmenn einn fulltrúa hvert félag.  Flóran í skákfélögunum er mikil og áherslur þeirra eins misjafnar og félögin eru mörg.  En lítum nánar á fulltrúa T.R.

 

Stigahæstur með 2238 Elo stig er núverandi Skámeistari og Hraðskákmeistari T.R. Daði Ómarsson en Daði verður vafalaust í toppbaráttunni í Skákþinginu þó hann hafi byrjað rólega.  Daði hefur ekki teflt mjög mikið síðastliðin tvö ár eða svo en vonandi sést hann meira við skákborðið á næstunni enda mikið efni þar á ferð.

 

Næstur Daða með 2185 stig kemur hinn mjög svo reynslumikli Júlíus L. Friðjónsson en hann hefur teflt tæplega 700 skákir.  Halldór Pálsson er þriðji TR-ingurinn í mótinu sem hefur meira en 2000 stig en hann hefur hækkað nokkuð á stigum að undanförnu.  Hvöss taflmennska Halldórs er gjarnan mjög skemmtileg og oftar en ekki er fjör á reitunum 64 í skákum hans.  Atli Antonsson er næstur  en hann hóf aftur taflmennsku fyrir nokkrum árum eftir hátt í sex ára hlé.  Síðan þá hefur hann hækkað um 150 stig og væri án efa enn stigahærri ef hið langa hlé hefði ekki komið til.

 

Formaður félagsins, Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir, er næst í röðinni en hún hefur verið mjög virk í mótum undanfarin ár sem er aðdáunarvert í ljósi þess hversu annríkt formannsstarfið er.  Það fer síðan vel á því að efnilegasti skákmaður þjóðarinnar og nýkrýndur Íslandsmeistari barna, Vignir Vatnar Stefánsson, fylgi formanninum.  Vignir, sem er tæplega tíu ára gamall, vakti strax athygli þegar hann var 5-6 ára og hefur síðan þá tekið gríðarlegum framförum.  Auk Íslandsmeistaratitilsins stóð hann sig mjög vel á Heimsmeistaramóti ungmenna fyrr í vetur ásamt því að hafa byrjað vel í KORNAX mótinu.  Vignir hefur hækkað um tæplega 200 Elo stig síðastliðið árið eða svo og er núna með 1627 stig.

 

Auk ofangreindra TR-inga eru fleiri fulltrúar ungra og upprennandi skákmanna og má þar nefna meðal annara Gauta Pál Jónsson, Bárð Örn Birkisson ásamt Mykhaylo Kravchuk sem varð í þriðja sæti á nýafstöðnu Íslandsmóti barna og því annar af tveimur TR-ingum í þremur efstu sætunum.  Mykhaylo sló einnig í gegn á jólaskákæfingu félagsins með glæsilegu tónlistaratriði í byrjun desember.

 

KORNAX mótið heldur áfram af fullum krafti á miðvikudagskvöld og þá munu glæsilegir fulltrúar T.R. halda áfram að „berast á banaspjótum“ líkt og allir hinir u.þ.b. 60 keppendur í þessu veglega móti.